Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 16:15:36 (4700)

2004-03-01 16:15:36# 130. lþ. 73.4 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, AtlG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[16:15]

Atli Gíslason:

Herra forseti. Í 3. gr. frv. kemur fram skilgreining á þessum hlutastarfsmanni. Þar segir orðrétt:

,,Starfsmaður telst í hlutastarfi ef venjulegur vinnutími hans á viku eða að meðaltali miðað við heilt ár er styttri en sambærilegs starfsmanns í fullu starfi.``

Þetta er einföld skilgreining á starfsmanni í hlutastarfi.

3. mgr. 2. gr. stenst ekki þessa skilgreiningu. Það er svo einfalt. Og ef hún stenst ekki þessa skilgreiningu þá er ekki verið að færa hlutastörfum þau réttindi sem tilskipunin áskilur þeim. Það er líka mjög einfalt.

Lesi maður svo athugasemdir við 3. mgr. 2. gr. er beinlínis gert ráð fyrir því að hægt sé að undanskilja fólk sem er í fastri langvarandi tímavinnu. Maður spyr: Af hverju? Búið er að spyrja margsinnis: Af hverju er þetta fólk undanskilið? Og skýringar hafa ekki komið frá hæstv. fjmrh. Svo einfalt er það. Það eru ekki bara BSRB-starfsmenn sem eiga hér í hlut heldur fjöldi ASÍ-félaga sem starfa hjá sveitarfélögum og ríkinu.

Það hefur ekki vafist fyrir Samtökum atvinnulífsins og ASÍ að gera þennan samning, hann er til. Þá verður kannski að snúa spurningunni á nýja lund og spyrja nýrra spurninga: Af hverju vill hæstv. fjmrh. ekki gera sambærilegan samning við ASÍ og BSRB á grundvelli samnings Samtaka atvinnulífsins og ASÍ? Af hverju vill hæstv. fjmrh. ekki gera slíkan samning?

Ég held því fram, bæði með vísun til skilgreiningar hugtaksins, orðalags 3. mgr. og ummæla í athugasemdum um 3. mgr. að innleiðingin takist ekki. Innleiðing þeirrar tilskipunar sem ætlað er að innleiða með frv. tekst ekki. Þess vegna gagnrýni ég þetta frv. harðlega því að lagasetningin í kjölfar slíks frv. verður óvönduð og ekki, að mínu mati, sæmandi Alþingi sér í lagi ef það blasir við að strax í kjölfar lagasetningar komi kvartanir til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA.