Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 16:18:37 (4701)

2004-03-01 16:18:37# 130. lþ. 73.4 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[16:18]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. er bersýnilega ekki rótt í sinni og það er engu líkara en að hann skammist sín fyrir þessa lagasetningu. Ég gerði það líka í hans sporum. Hæstv. ráðherra segir að það sitji ekki á mér að hjálpa sér með leiðbeiningar og það er alveg sjálfsagt að ég reyni að hjálpa hæstv. ráðherra til þess að komast að réttri niðurstöðu í þessu máli.

Mér heyrist á máli hæstv. ráðherra að hann skilji ekki einu sinni sjálfur hvað um er að ræða og hvaða réttindi verið er að færa hlutastarfsmönnum. Hæstv. ráðherra kemur hér og skekur skellum að hv. þm. Ögmundi Jónassyni af því að hann er formaður BSRB og spyr af hverju í ósköpunum hv. þm. reyni ekki sem formaður BSRB að beita sér fyrir því að tímavinnustarfsmenn séu fluttir úr hlutastörfum yfir í fullt starf. Herra minn trúr, ég ætla þá að feta í fótspor hv. þm. Ögmundar Jónassonar og trúa hæstv. forseta fyrir því að ein þeirra réttinda sem einmitt er verið að reyna að samþykkja hér með lögum eru að auðvelda þeim sem eru í hlutastarfi að fá það sem hæstv. ráðherra kallar fast ráðningarsamband, að komast í fullt starf. Það er a-liðurinn í 4. gr. sem fjallar um réttindi og skyldur. Þetta er eitt af því sem fellur undir þessi lög. Þannig skil ég þau, hæstv. forseti.

Ég held að það sé með ólíkindum að hæstv. fjmrh. skuli öðrum megin borðsins vera sá sem synjar ákveðnum ríkisstarfsmönnum og ákveðnum opinberum starfsmönnum sem vinna í því sem skilgreint er sem hlutavinnustarf, þeirra réttinda að fá að flytjast úr fullu starfi í hlutastarf, að auka eða minnka starfshlutfall, að auðvelda þeim aðgang að hlutastörfum innan viðkomandi stofnunar, m.a. í stjórnunarstöðum, og svo gæti ég lengi talið.

Hinum megin borðsins er hann síðan sá fjmrh. sem kemur í veg fyrir að hægt sé að innleiða þessa tilskipun og veita réttindin sem hún tekur til gagnvart þessum tilteknu starfsmönnum. Ég dreg mjög í efa að það séu sæmileg vinnubrögð að ráðherra skuli sitja beggja megin borðsins með þessum hætti.

Ég spyr líka: Hæstv. fjmrh. var á sínum tíma í forsvari fyrir okkur þingmenn þegar við náðum samstöðu um að breyta stjórnarskrá með það fyrir augum að efla mannréttindaákvæði hennar, þar á meðal jafnræðisregluna. Hún er núna í stjórnarskránni. Ég dreg það einfaldlega í efa að þetta standist þau ákvæði stjórnarskrárinnar sem við samþykktum 1994 um jafnræði. Þar er talað um að ekki megi mismuna fólki vegna, eins og segir aftast í því ákvæði, ,,stöðu að öðru leyti``. Það er alveg klárt að með því að innleiða tilskipunina með þessum hætti þá er verið að mismuna fólki. Tímavinnustarfsmenn njóta ekki sömu réttinda eftir því hvort þeir eru starfsmenn hjá ríkinu eða á almennum vinnumarkaði.

Nú skal ég fúslega viðurkenna, hæstv. forseti, að ég er ekki þaulkunnugur þessari tilskipun. En ég leyfi mér að draga í efa að það sé í anda hennar að beita heimildarákvæði 2. gr. tilskipunarinnar með þessum hætti. Sagt er að það sé heimilt að ganga frá innleiðingunni í frjálsum samningum. En ég tel að það sé mjög umhendis að nota það heimildar\-ákvæði með þeim hætti sem hæstv. ráðherra gerir núna. Það er búið að semja um þetta á almennum vinnumarkaði þannig að forskriftin liggur fyrir. Og ég spyr eins og hv. þm. Atli Gíslason: Hvað stendur í veginum fyrir því að sá samningur sem gerður var milli ASÍ og Samtaka atvinnulífsins verði forskrift að samningi hæstv. fjmrh. við opinbera starfsmenn? Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað kemur í veg fyrir það?

Sömuleiðis get ég ekki annað en rætt um jafnræðisregluna og jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar. Hv. þm. Atli Gíslason hefur bent á það hér að það sé fólk sem lúti kjarasamningum ASÍ og sé tímavinnustarfsmenn hjá ríkinu. Þetta kann að vera töluverður hópur manna. Er þá ekki verið að brjóta jafnræðisreglu á þessum hópi gagnvart félögum þeirra innan ASÍ?

Það kemur líka fram, virðulegi forseti, í grg. með frv. að átt hafi sér stað samningar og ákveðið samráð, og þá er vísað til atbeina hæstv. félmrh. Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Lengi vel horfði vænlega um að samningar tækjust á milli aðila um að láta efni tilskipunarinnar ná til starfsmanna hins opinbera.``

Þeir aðilar sem þarna er vísað til eru opinberir starfsmenn og væntanlega þeir samráðsaðilar félmrn. sem getið er um. Mig langar að spyrja hæstv. félmrh.: Hvað var það sem olli því að eftir að lengi hafði horft vænlega um að samningar næðust strönduðu þeir samt sem áður? Ég spyr hæstv. félmrh.: Var það vegna þess að hæstv. fjmrh. vildi ekki fallast á að þær reglur sem búið var að ná lendingu um á almenna vinnumarkaðnum næðu líka yfir opinbera vinnumarkaðinn, þ.e. næðu líka inn í samninga milli opinberra starfsmanna og fjmrn.?

Hæstv. forseti. Við megum ekki horfa fram hjá því hvert er markmið þessara laga. Það er ekki bara að bæta gæði hlutavinnustarfsmanna heldur líka að koma í veg fyrir að þeir sæti mismunun. Mér virðist að með því að leiða tilskipunina með þessum hætti sé í reynd verið að ganga í þveröfuga átt, það sé í reynd verið að innleiða mismununina í lög sem ekki var þó áður. Ég get ekki fallist á það.

Mér virðist líka sem hæstv. fjmrh. geri sér ekki grein fyrir því að hugtökin sem hann er að velta í munni sér ríma ekki alveg við veruleikann. Mér finnst eins og hæstv. fjmrh. álíti það að tímavinnufólk sé vinnuafl sem einungis sé ráðið um stundarsakir, svo hverfi það og leiti starfa annars staðar, svona eins og vertíðarfólk. Þannig bar hæstv. fjmrh. sér í munn ensku orðin ,,casual workers``. Það er allt annað en þeir tímavinnumenn sem eru árum saman í starfi hjá hinu opinbera, sveitarfélögum og ríkinu, og það er með engu móti hægt að líta svo á að þeir séu eins og einhvers konar farandverkamenn. En hvernig í ósköpunum á að fella orðin ,,casual workers`` --- svo ég leyfi mér aðeins að grípa til erlendrar tungu, með leyfi hæstv. forseta, og skal ekki gera það aftur --- undir þann hóp sem ég hef verið að lýsa?

Ég velti því líka fyrir mér þegar menn eru að tala um fast ráðningarsamband eins og hæstv. fjmrh. hvort ekki megi líta svo á að þeir sem eru tímavinnumenn og vinna árum saman hjá sama vinnuveitanda, í þessu tilviki sveitarfélögum eða ríkinu, séu komnir í fast ráðningarsamband þó að það falli kannski ekki undir þær skilgreiningar sem við höfum notað á almenna vinnumarkaðnum.

Virðulegi forseti. Mér finnst mjög dapurt ef það er svo að hæstv. fjmrh. er að nota hérna einhvers konar undarlegar afsakanir, sem við höfum ekki fengið nokkurn botn í, til þess að koma í veg fyrir að hlutavinnustarfsmenn hjá hinu opinbera njóti þeirra sanngjörnu réttinda sem um getur í 4. gr. Ég vek sérstaka eftirtekt á því að sum þessara atriða varða konur sérstaklega. Ef menn lesa þessar greinar sjá þeir að verið er að gera konum auðveldara um vik að koma aftur inn á vinnumarkaðinn, breyta sínum háttum á vinnumarkaði og hlýtur að vera jákvætt.

Ég vek líka eftirtekt á því að það er ákaflega skammt síðan út kom skýrsla, ég man ekki hvort hún var frá hinum ágætu starfsmönnum hæstv. félmrh. en alla vega var verið að greina frá því að breytingar á lýðfræði Íslendinga og annars staðar í Evrópu geri það að verkum að til þess að við höfum nægilegt vinnuafl í framtíðinni þurfum við aftur að fara þá leið að laða inn á vinnumarkaðinn aldraða borgara sem hafa í vaxandi mæli verið að draga sig út af honum. Við munum þurfa á því vinnuafli að halda í framtíðinni í miklu ríkari mæli en áður. Og einmitt þess vegna er svo nauðsynlegt að gera hlut þeirra sem eru í hlutavinnu betri en áður.

Ég hef varpað ákveðinni spurningu til hæstv. félmrh. sem ég veit að hann mun svara mér. En ég vil að lokum segja þetta, hæstv. forseti: Hæstv. fjmrh. getur ekki lokið við þessa umræðu öðruvísi en að bera fyrir okkur efnislegan rökstuðning fyrir því að nota undanþáguheimildina með þessum hætti. Ég vek aftur athygli á því að í 2. gr. tilskipunarinnar er einungis um heimild að ræða. Það er ekkert fortakslaust sem segir að þetta eigi að gera með þessum hætti. Ég skora á hæstv. fjmrh. að upplýsa okkur um af hverju ekki er hægt að fara þá leið að nota samningana sem gerðir hafa verið um þessi atriði á hinum almenna vinnumarkaði sem forskrift að þeim þætti þessa frv. sem ætti að fjalla um opinbera starfsmenn.