Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 16:30:09 (4702)

2004-03-01 16:30:09# 130. lþ. 73.4 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[16:30]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Málið sem við fjöllum um hefur oft fengið góða umræðu á Alþingi, eins og vera ber, og ekki síst í hv. félmn.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson beinir til mín spurningu um hvað hafi borið í milli, milli starfsmanna ríkisins annars vegar og ríkisins sem vinnuveitenda hins vegar.

Málið á sér langan aðdraganda sem hér hefur verið rakinn, málið var fyrst rætt í samstarfsnefnd félmrn. og samtaka á vinnumarkaði 1996. Það er ekki fyrr en 2002 sem samningar takast um málið. Eftir um 40 samningafundi milli aðila hjá ríkinu, ríkinu sem vinnuveitanda, sveitarfélögunum og starfsmanna þeirra náðist ekki saman. Það er of langt mál að rekja það hér hvers vegna það var. Málið er komið í þá stöðu sem það nú er.

En ég tel ástæðu, hæstv. forseti, til að vekja sérstaka athygli á því við umræðuna, sem ekki hefur komið fram, að inn í þetta frv. til laga er eftir umfjöllun félmn. komið ákv. til brb. þar sem gert er skylt að ákvæðið sem hér er helst til umræðu, þ.e. 3. mgr. 2. gr. laganna, verði tekið til endurskoðunar innan tveggja ára frá gildistöku laganna, og þetta er ekki orðið valkvætt heldur skylda, hæstv. forseti.