Starfsmenn í hlutastörfum

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 16:47:06 (4708)

2004-03-01 16:47:06# 130. lþ. 73.4 fundur 411. mál: #A starfsmenn í hlutastörfum# (EES-reglur) frv. 10/2004, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[16:47]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það hafi ekki verið mismæli sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði varðandi réttindin sem hér er kveðið á um því að í 4. gr. lagafrv. segir að atvinnurekendur skuli, svo sem kostur er, taka tillit til óska starfsmanns um að flytjast úr fullu starfi í hlutastarf eða úr hlutastarfi í fullt starf. Það var til þeirrar klásúlu í frv. sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson vísaði.

Mergurinn málsins í þeirri deilu sem hér er upp risin er að tímavinnufólk er undanskilið þegar kemur að þeim réttindum sem kveðið er á um í þessu lagafrv. Frv. kveður á um aðgang að símenntun, að endurmenntun, að upplýsingum á vinnustaðnum og gerir ráð fyrir að tekið sé tillit til þarfa starfsmanna. Tímavinnufólk á ekki að fá að njóta þessara réttinda.

Meginþunginn í málflutningi mínum gengur út á að benda á að á Íslandi eru því miður mjög stórir hópar fólks hjá ríki og sveitarfélögum sem búið hafa við tímavinnuformið árum saman, í mörg ár. Það er í beinni mótsögn við það sem fram kemur í grg. með þessu frv. Ef það sem þar segir stæðist þá skildi ég þennan málflutning. En það stenst ekki. Þetta er ekki veruleikinn.

Lögin á að setja til að treysta réttarstöðu þessa fólks. Í stað þess að reyna að treysta réttarstöðu fólksins og gera hlutavinnustarf eftirsóknarverðara þá er ætlunin að undanskilja þessa hópa. Ég hef ekki enn fengið rök fyrir því hvers vegna í ósköpunum það er gert.