Samkomudagur Alþingis og starfstími þess

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 17:16:57 (4711)

2004-03-01 17:16:57# 130. lþ. 73.5 fundur 147. mál: #A samkomudagur Alþingis og starfstími þess# frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[17:16]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Hæstv. forseti. Stjórnmálamenn búa við vinnutíma frá tíma bændasamfélagsins. Fundartími þingsins er lagaður að þeim tíma þegar Jótarnir komu til Kaupmannahafnar með hestvagni og þrír fjórðu þingmanna voru bændur sem þurftu að sinna bústörfum í þrjá til fjóra mánuði yfir sumarið. Virðulegur forseti. Ég vitna hér til umræðu sem birtist á síðum danska dagblaðsins Politiken þann 14. febrúar sl. en þar er verið að segja frá umræðum sem áttu sér stað í danska þinginu skömmu fyrir síðustu jól. Þá hagaði því þannig til að ungir þingmenn í danska þinginu stóðu fyrir undirskriftasöfnun meðal þingmanna og mótmæltu starfstíma og skipulagi þingsins. Fór þar fremst í flokki ung þingkona frá Venstre, Rikke Hvilshøj, en jafnframt því að vera þingmaður sinnir hún líka því hlutverki að vera tveggja barna móðir.

Rikke Hvilshøj fékk 62 þingmenn til að skrifa undir mótmælin og samkvæmt fréttinni vildu fleiri gjarnan taka undir með henni efnislega en töldu ekki rétt staðið að verki með því að safna undirskriftum, það ætti að fara öðruvísi í að vinna slík mál.

Þarna fóru ungir þingmenn fremstir í flokki þeirra sem mótmæltu, og margir þeirra höfðu önnur hlutverk með höndum, móður- eða föðurhlutverk. Þau sögðu að tími væri kominn til að breyta starfstíma danska þingsins sem er, eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir greindi hér frá, kannski mest í takt við það sem við höfum hér á landi. Aðrar Norðurlandaþjóðir hafa stytt hléin verulega. Greinilega er víðar en hér óánægja með skipulag og starfstíma þingsins. Þessir þingmenn kröfðust þess að skipulagi þingsins yrði breytt þannig að þeim yrði gert kleift að sinna öðrum hlutverkum ásamt með því að vera þingmenn, og þá er fyrst og síðast kannski verið að vísa til þess að geta samræmt þingmannsstarfið því að eiga fjölskyldulíf.

Það má segja að viðbrögðin hafi verið eins og við var að búast af þeim sem reyndari voru og höfðu setið lengi á þingi. Forustumenn þingsins fóru í svolitla vörn fyrir það fyrirkomulag sem fyrir var, það væri erfitt að breyta áratuga langri hefð, þingmannsstarfið væri ekki átta tíma starf o.s.frv. Við þekkjum þessa umræðu héðan úr íslenska þinginu líka.

Hæstv. forseti. Það er enginn að tala um að með breyttum starfstíma þingsins sé verið að fara fram á það að þingið starfi einungis frá 8--16. Ég held að við gerum okkur flest grein fyrir því að mikið vinnuálag getur fylgt því að sinna ábyrgðarstarfi eins og þingmennska er. Spurningin er hins vegar hvort við getum nýtt tíma okkar betur. Getum við skipulagt störf okkar betur þannig að við fáum meira út úr þeim tíma sem við verjum á hinu háa Alþingi?

Frv. sem hér er nú fyrir þinginu og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir er 1. flm. að miðar einmitt að því að starfstíma Alþingis verði breytt þannig að hléin verði styttri sem jafnframt hefði það í för með sér að hægt væri að skipuleggja störf þingsins betur. Löngu loturnar sem menn vinna, ekki bara við sem störfum hér á þinginu, ekki bara alþingismenn og ekki bara starfsmenn þingsins, heldur líka hinir fjölmörgu sem starfa úti í ráðuneytunum og í kringum þingið víðs vegar í þjóðfélaginu, heimta ákveðið skipulag af fólki. Allt þetta fólk gæti skipulagt tíma sinn betur, þyrfti þá ekki að vinna nótt eftir nótt á ákveðnum tímum árs en hefði þess á milli löng hlé.

Ég held, hæstv. forseti, að starfstíminn og skipulag hans sé gríðarlega mikilvægur þáttur í því að við getum endurskipulagt störf okkar, ekki bara með tilliti til barnafólks og þeirra sem vilja sinna ýmsum öðrum hlutverkum, sem við viljum flest í dag samhliða störfum okkar, heldur bara almennt séð til þess að fá betri nýtingu út úr störfum okkar.

Þegar ég var nýkomin til þings, fyrir rúmum átta árum, var hér starfandi nefnd á vegum þáverandi forseta þingsins, Ólafs G. Einarssonar, sem hafði mjög margar spennandi tillögur uppi á borðum sem áttu m.a. að leiða til þess að hægt væri að skipuleggja störf þingsins betur. Þær tillögur voru margar góðar --- í nefndinni voru fulltrúar allra þingflokka sem unnu tillögurnar og allt útlit var fyrir að þær mundu nást í gegn --- en því miður, á síðustu stundu vil ég segja, stoppuðu þær einhvers staðar. Mér skilst að þær hafi ekki verið hreyfðar síðan og er það miður. Þarna voru margar góðar tillögur sem mætti endurvekja. Þar var m.a. lagt til það fyrirkomulag að fyrirspurnir mætti leyfa yfir sumartímann, sem sagt á meðan hléið stendur yfir sumarið, þá skriflegar fyrirspurnir þannig að gera mætti Alþingi kleift að sinna eftirlitshlutverki sínu með framkvæmdarvaldinu upp að einhverju marki þó að hlé væru á störfum Alþingis.

Þar voru lagðar til grundvallarbreytingar á nefndafyrirkomulagi þingsins sem m.a. voru miðaðar við það þjóðfélag sem við búum í í dag en ekki bændasamfélagið og það samfélag sem við bjuggum við fyrir kannski 100 árum eða svo. Meðal annars var lagt til að nefndir Alþingis yrðu verulega styrktar um leið og þær yrðu lagaðar meira að þjóðfélagi dagsins í dag.

Þar voru líka uppi tillögur um að ræðutími yrði takmarkaður í mun meira mæli en nú er sem er vissulega mikilvægur liður í því að hægt sé að skipuleggja störfin, átta sig á því hvenær mál kemst á dagskrá o.s.frv. Ég man ekki hvort í þeim tillögum birtust líka hugmyndir sem hafa oft verið til umræðu, um að þingmál séu ekki lögð fram síðar en t.d. 1. febrúar í staðinn fyrir --- já, það var líklega í þeim tillögum líka sem er mjög mikilvægur liður í því að breyta álagspunktunum sem eru gjarnan í lok hvers þings. Sum þingmál koma seint fram og eiga þar kannski ekki síst ráðherrarnir sök á, og þingmenn sjálfir, en oft taka stjórnarþingmálin mestan tíma hér og það er verið að leggja þau fram á síðustu stundu sem þýðir að í lokin myndast tappi og mikið vinnuálag í lok þingsins.

Allt mundi þetta leiða af sér betra fyrirkomulag sem gerir okkur öllum kleift að skipuleggja tíma okkar betur.

Að sjálfsögðu legg ég til að frv. sem hér er til umræðu um samkomudag Alþingis og starfstíma verði gert að lögum og ég held að það væri mjög mikilvægt skref. Að auki held ég að það væri líka lag fyrir hið háa Alþingi að endurvekja tillögur eða þá nefndavinnu sem hæstv. fyrrv. forseti, Ólafur G. Einarsson, stóð fyrir, dusta af þeim rykið og athuga hvort ekki væri ástæða til að taka þá vinnu upp aftur. Ég held að þó að við séum kannski með mismunandi skoðanir á því hvað beri að gera til að breyta hér skipulagi vinnunnar séum við allflest sem hér störfum sammála um að ýmislegt mætti gera. Ýmiss konar reglur, eins og t.d. um það að fólk þurfi að setja sig á mælendaskrá deginum áður --- ég hef heyrt um slíkar reglur frá sænska þinginu, minnir mig --- að þingtíma skuli að jafnaði lokið á einhverjum tilteknum tíma, hvort sem það er klukkan sex eða klukkan sjö en að byrjað sé fyrr á daginn. Það er ýmislegt sem mætti skoða og gera.

Hæstv. forseti. Þetta snýst ekki bara um starfsaðstöðu þingmanna og starfsmanna þingsins heldur snýst þetta allt saman líka ekki síður um möguleika Alþingis til að sinna því mikilvæga hlutverki sem stjórnarskráin og stjórnskipunarrétturinn kveður á um að hið háa Alþingi eigi að sinna sem er, samkvæmt stjórnskipunarréttinum, valdamesta stofnun íslenska þjóðfélagsins. Við eigum alltaf í störfum okkar að hafa það í huga og standa vörð um þá stöðu þessarar virðulegu stofnunar.

Margir hafa haldið því fram að þessi valdamesta stofnun íslenska samfélagsins sé að veikjast mjög í seinni tíð og að framkvæmdarvaldið dafni á meðan. Ég er ein af þeim sem hafa vissulega þær áhyggjur að það sé að gerast og ég tel margt benda til að svo sé. Ég held að það sé mikilvægt að við veltum fyrir okkur hvort ekki sé ástæða til að styrkja þessa stofnun verulega í sessi þannig að hún fái sinnt þessu veigamikla hlutverki sem henni er falið. Ég held að sú tillaga sem hér er til umræðu mundi geta styrkt verulega þessa stofnun sem slíka.

Eitt mikilvægasta hlutverk Alþingis er jú að hafa með höndum löggjafarverkefni. Þegar við lítum hins vegar á það hvaðan þau frv. koma sem fást samþykkt hér á hinu háa Alþingi má kannski halda því fram að löggjafarhlutverkið, sem á þá að vera eitt mesta og stærsta hlutverkið sem Alþingi hefur með höndum, sé að miklu leyti á höndum ríkisstjórnarinnar og framkvæmdarvaldsins. Langstærstur hluti þeirra laga sem Alþingi samþykkir stafar frá ríkisstjórninni og þau eru undirbúin og skrifuð í ráðuneytunum. Það er alls ekki algengt að samþykkt séu lagafrumvörp frá einstökum þingmönnum eða þingnefndum, slíkt gerist aðeins í undantekningartilvikum. Samkvæmt skýrslum Alþingis fyrir tvö síðustu þing eru tölurnar svona:

Á 127. þingi voru samþykkt 119 lagafrv., þar af stöfuðu 111 frá ríkisstjórninni, tvö frá stjórnarþingmönnum, 0 frá stjórnarandstöðu --- sem þrátt fyrir allt hefur tæpan meiri hluta landsmanna á bak við sig --- og sex frá nefnd eða meiri hluta nefndar. Af framlögðum frv. voru 135 frá ríkisstjórn, stjórnarþingmenn lögðu fram 19 frv., stjórnarandstaða 54 og nefndir lögðu fram sjö.

Við sjáum að þó að stjórnarandstaðan og þingnefndir leggi fram eitthvað af málum fást þau þó sjaldan í gegn.

Árið á eftir var staðan svipuð. 115 lög stöfuðu frá ríkisstjórninni, ein frá þingmönnum stjórnarinnar, 0 frá stjórnarandstöðu og 12 frá nefnd eða meiri hluta nefndar. Eilítið fleiri.

Þetta sýnir okkur svo ekki verður um villst að löggjafarhlutverkið er orðið að miklu leyti á ábyrgð ráðuneyta, þetta mikilvæga hlutverk sem okkur er falið, með öðrum orðum á forræði framkvæmdarvaldsins. Þetta held ég að við þurfum að skoða og ég tel að tillögur til breytinga á t.d. nefndunum og skipulagi nefndanna ætti að skoða. Ef þær yrðu styrktar mætti fela þeim í mun ríkara mæli löggjafarhlutverk en hefur verið og ég held að það væri mjög gott innlegg í þá umræðu sem m.a. er hér tekin fyrir um að styrkja stöðu Alþingis.

Breyttur starfstími, eins og lagt er til í þessu frv. hér, með styttri hléum, mundi líka gera Alþingi betur kleift að sinna eftirlitshlutverkinu með framkvæmdarvaldinu sem er líka eitt af okkar mikilvægustu hlutverkum. Ríkisstjórninni er, eins og við vitum, skylt að standa þinginu skil gerða sinna sem má leiða af þingræðisreglunni í 1. gr. stjórnarskrárinnar. Í krafti þeirrar reglu á Alþingi að hafa eftirlit með stjórnvöldum og ráðherra á að bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum gagnvart Alþingi.

Alþingi hefur eins og við vitum nokkur úrræði til að sinna þessu hlutverki sínu, svo sem með fyrirspurnum til ráðherra, skýrslubeiðnum um tiltekin mál, með því að krefja ráðherra svara í utandagskrárumræðum o.s.frv. Það segir sig sjálft að ef starfstíminn yrði dreifðari yfir árið og hléin styttri yrði þessu hlutverki mun betur sinnt en reyndin er í dag.

Það hafa líka ýmis úrræði verið tekin upp í því skyni að efla þetta eftirlit í seinni tíð. Má þar nefna stofnun embættis umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðunar, svo ég nefni eitthvað til sögunnar sem hefur verið jákvætt í þessari þróun. En við höfum líka nánast dauð úrræði í stjórnarskránni, eins og heimildina í 39. gr. sem kveður á um skipan rannsóknarnefnda þingsins.

Ég held að við þurfum að skoða mjög ítarlega á hvern hátt við fáum betur sinnt því hlutverki sem okkur er svo sannarlega falið í stjórnarskránni og fyrsta skrefið í þá átt tel ég vera að breyta samkomutímanum eins og lagt er til í frv. hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur. Ég legg til að þingmenn skoði þetta mjög ítarlega og að það verði samþykkt. Ég held að slíkt yrði mjög mikilvæg viðleitni til að styrkja stöðu þessarar virðulegu stofnunar.