Samkomudagur Alþingis og starfstími þess

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 17:32:16 (4712)

2004-03-01 17:32:16# 130. lþ. 73.5 fundur 147. mál: #A samkomudagur Alþingis og starfstími þess# frv., HHj
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[17:32]

Helgi Hjörvar:

Herra forseti. Það þingmál sem hér er flutt af hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur og Bryndísi Hlöðversdóttur er í sjálfu sér ekki flókið. Þar er vakin athygli á því að 19. öldin er liðin og sú 20. jafnframt og 21. öldin runnin upp og að í ljósi þeirra staðreynda sé tímabært að hætta að miða þinghald við sauðburð og réttir.

Það er um margt skrýtilegt, herra forseti, að vera nýr þingmaður og kynnast þeim vinnubrögðum sem hér eru viðhöfð við lagasetningu, sem er iðja sem maður sem nýliði ber mikla virðingu fyrir og undrast á köflum hversu lítil virðing er sýnd í starfsháttum okkar. Þegar maður kynnist viðrini eins og þeim bráðabirgðalögum sem sett voru á liðnu sumri, þegar maður kynnist hér bægslagangi og ónógri umfjöllun við afgreiðslu mikilsverðra mála eins og fjárlaga íslenska ríkisins, mála sem varða lífskjör stórra hópa eins og atvinnulausra hér rétt fyrir jólin og eins og hefur komið í ljós um mörg, mörg mál sem maður hefur séð fjallað um í vetur og hef ég þó ekki setið lengi á þingi. Allt virðist þetta stafa af hinu sama, að menn ætla sér of skamman tíma og skipuleggja ekki starfið nægilega vel til að hér sé nógu vönduð umfjöllun um löggjöfina og að hér sé til staðar þing til að setja lög þannig að ekki þurfi að koma til bráðabirgðalagasetningar eins og við urðum vitni að síðasta sumar og þurfti mikillar leiðréttingar við strax á haustdögum.

Í vinnutörninni fyrir jólin var ég að reyna að útskýra fjarverur mínar af heimilinu fyrir eldri dóttur minni, 12 ára, og reyndi að hafa uppi þau huggunarorð að bráðum yrði jólafrí og það væri nú sæmilegt. Hún spurði: ,,Já, og hvað er það lengi?`` ,,Ja, við förum í jólafrí 15. desember``, sagði ég ,,til 28. janúar.`` Ég verð að játa, herra forseti, að ég held að blessaður grunnskólanemandinn hafi aldrei látið sér detta í hug að það væri vinnandi fólk í landinu sem hefði lengra jólafrí en grunnskólanemendurnir og hún var fljót að spyrja: ,,Jæja, og hvenær farið þið svo í sumarfrí?`` Þá hélt ég að við færum ekki fyrr en 15. maí, virðulegur forseti, og sagði henni það. Ég held að hennar skóli sé eitthvað fram í júní. Hún var snögg upp á lagið, sú stutta, og gall í henni: ,,Já, já, og farið þið þá ekki í páskafrí 29. janúar til 14. maí?`` Það var ekki alveg laust við að hún svona hálf firrtist við.

Ég held að það verði bara að segja að það liggur nærri að starfstíminn sé móðgun við vinnandi fólk. Ekki bara við vinnandi fólk heldur fyrst og fremst við þá sem eru að vinna hér, vegna þess að starfstíminn kallar á vinnubrögð og vinnutíma sem kannski var hægt að bjóða upp á í samfélagi fyrri tíma, en á engan veginn við fyrir nútímann og fyrir það fjölskyldulíf sem við gerum öll kröfu til að lifa.

Ég heyri það í æ ríkari mæli á samþingmönnum mínum og þeim sem eru að koma nýir inn að við þetta muni menn einfaldlega ekki una mikið lengur, enda sjáum við, herra forseti, að hér í húsinu eru síðdegis á mánudegi við umræður um þetta aðeins staddir 14 þingmenn. Ef til vill einhver lítill hópur á skrifstofum sínum að fylgjast með umræðunni í sjónvarpinu, en auðvitað er fjöldinn allur af okkur farinn heim til að sinna fjölskyldu sinni, sem eðlilegt er því þó það geti gerst að við þurfum að vinna síðdegis og á kvöldin og hér geti orðið tarnir vegna þeirra mikilvægu starfa sem hér fara fram, er kannski ekki eðlilegt að hið hefðbundna starf frá einni viku til annarrar sé skipulagt með þeim hætti og gert ráð fyrir því.

Ég held að við hljótum, herra forseti, að taka til alvarlegrar athugunar að leiða í lög það frv. sem hér er flutt og felur ekki í sér annað en að dreifa þeim störfum sem þegar eru unnin, því auðvitað starfa alþingismenn meira og minna allan ársins hring og skila miklu meira en fullu dagsverki í sinni vinnu eins og við þekkjum í húsinu. En að skipuleggja það starf betur yfir lengri tíma og ætla sér betri tíma til að vanda til þeirra hluta sem smíða þarf, laga fyrir samfélagið.