Samkomudagur Alþingis og starfstími þess

Mánudaginn 01. mars 2004, kl. 18:01:43 (4718)

2004-03-01 18:01:43# 130. lþ. 73.5 fundur 147. mál: #A samkomudagur Alþingis og starfstími þess# frv., Flm. RG
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 130. lþ.

[18:01]

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst hún hafa verið góð. Ég vil ekki síst þakka þátttakendum úr öðrum flokkum en Samf. Við höfum rætt þetta í okkar röðum og mundum gjarnan vilja sjá að frv. þetta yrði upphafið að því að koma á breytingum. Satt best að segja kemur mér á óvart að svo efnisleg og góð umræða skyldi verða um málið svo síðla dags. Umræða af þessu tagi, þegar Alþingi fjallar um sjálft sig, umhverfi sitt og væntingar til að bæta það, hefði vissulega átt erindi til fréttamanna sem fylgjast með þingstörfum á öðrum tíma dags. Það hefði verið gott að koma á framfæri hvernig Alþingi ræðir þá hluti.

Það er hárrétt að þessi mál snúast um ímynd, ímynd Alþingis og ekki síst ímynd alþingsmanna. Fyrir utan það sem hér hefur verið nefnt snýr þetta mál jafnframt að vinnutíma starfsfólks á Alþingi. Það hefur oft verið ómanneskjulegt og ekki til fyrirmyndar það vinnulag sem starfsfólki Alþingis hefur verið boðið upp á. Oft á tíðum, þegar við göngum út úr húsinu, á fjöldi fólks eftir að ganga frá ýmsum málum. Áður en við komum til þings er búið að undirbúa að við getum gengið til verka. Það er auðvitað fjölmargt sem þarf að breytast og getur breyst ef við tökum á þessum málum.

Ég man líka næturumræðuna í jólavikunni, sem hv. þm. Pétur Blöndal benti á. Við skulum ekki gera lítið úr því að mál hafa verið lagfærð með nokkrum góðum breytingum á þingsköpum. En það er ekki hægt að sætta sig við að það hefur ekki verið vilji til að taka upp umræðuna um frekari breytingar síðan Ólafur G. Einarsson fór af þingi. Hann flutti þetta ágæta frumvarp, mikið að vöxtum og með mörgum góðum tillögum. Með það var heilmikið unnið þar til það var sett út af borðinu eins og hér hefur þegar verið getið. Á 123. löggjafarþingi var lagt fram frv. og hvað svo? Ekkert. Í stað faglegrar þróunar hefur verið algjör stöðnun í þessum efnum.

Í stað þess að hér sé, eins og hv. þm. Pétur Blöndal nefndi, virkt þing þá virkar það oft á þingmenn sem það sé grundvallarhugsun að losa sig við þingið, eins og hér hefur verið nefnt. Það vekur auðvitað upp vangaveltur um að í nágrannalöndunum ræður þingið sjálft vinnulagi sínu. Þannig er það ekki hér. Þar eru það forsetar þinganna sem kalla þingið saman. Eðlilega. Hjá okkur ríkir gömul hugsun frá frumdögum sjálfstæðisins þannig að forsrh. kallar okkur til þings. Hvaða staða er það að sitjandi forsrh., hver sem hann er, úr hvaða flokki sem hann kemur, kalli okkur þingmenn til starfa? Að sjálfsögðu á forseti Alþingis að kalla okkur til vinnu meðan þetta form er eins og við höfum rætt um.

Í öðrum þingum er jafnframt skylda að mæta í atkvæðagreiðslu. Það er algjör skylda, og þá á ég við að þeirri skyldu er framfylgt.

Í öðrum þingum á Norðurlöndunum þarf formlegt leyfi til fjarvista. Það er ekki hægt að ákveða að ætla ekki að fara í þingið þann daginn. Það þarf að óska eftir því að af sérstökum ástæðum, svo sem vegna mikilla anna vegna undirbúnings máls eða vegna þess að menn þurfi að fara á fund erlendis, þurfi leyfi frá störfum. Það þarf að vera viðurkennd ástæða. Þar er ekki nema tilteknum fjölda þingmanna leyft að taka leyfi einhverja þingdaga enda ekki talið ásættanlegt að einhver tiltekinn fjöldi hverfi úr þinginu. Allt þetta er sérstaklega haldið utan um. Í norska þinginu er þriggja manna nefnd sem leggur mat á fjarvistir þingmanna. Þingmenn þurfa að sækja um leyfi til þeirrar nefndar um hvort þeim leyfist að vera fjarverandi við atkvæðagreiðslu, leyfist að fara á fund út af einhverju málefni. Sem þingmenn í þessum löndum þurfa menn að fá afgreitt slíkt leyfi.

Að þessu leyti hefur þróunin verið slæm hjá okkur. Það var óalgengt að ekki væru allir mættir til atkvæðagreiðslu, sama hvert málið var, á fyrstu árum mínum á þingi. Þetta hefur breyst. Þróunin hefur orðið sú að það telst duga að það slefi í meiri hluta fyrir máli sem á að afgreiða.

Margt fær að fljóta hjá okkur í þinginu sem ætti að vera með öðrum hætti. Við fáum t.d. mjög margar góðar skýrslur í hólfin okkar. Oft á tíðum hefur verið kallað eftir þeim skýrslum með þingmálum fluttum í þingsal. Þingmál hafa oft orðið hvati að gerð skýrslna. Það er helst að þær skýrslur sem þingmenn hafa verið hvatamenn að fái umræðu. Um slíkt þarf að semja, að taka frá dálítinn tíma til að ræða skýrslu þar sem hver þingflokkur fær tiltekinn ræðutíma. Það er eins og annað í andateppustíl. Þar með er búið að ræða skýrsluna.

Ef við mundum breyta þinghaldinu þannig að þingið stæði fleiri mánuði og yrði skipulagt öðruvísi þá mundi e.t.v. gefast tími til að ræða skýrslur almennt. Það gæti verið mjög mikilvægt að ræða skýrslur framkvæmdarvaldsins. Á grundvelli þeirra skýrslna er oft metin þörfin á að breyta lögum. Við fáum þær í hólfin okkar og það er undir hælinn lagt hve mikið er að gera í þinginu og hve mikinn tíma við höfum til að lesa viðkomandi skýrslu eða glugga í hana eða hvort einhver óskar eftir að viðkomandi skýrsla verði rædd. Það er ekki skylt og þarf að ná samkomulagi um það í hvert sinn.

Hér urðu orðaskipti um orðin ,,jólahlé`` og ,,jólafrí`` eða ,,sumarhlé`` og ,,sumarfrí``. Ég lenti í því einu sinni að fara í kvennamessu á 19. júní inni við Þvottalaugar. Þá kom til mín ung kona sem vinnur á vinnustað sem mjög oft hefur samband við þingmenn. Hún sagði: ,,Afskaplega er ég heppin að hitta þig hér. Ég er búin að reyna að ná til þín mörgum sinnum á sl. tveimur vikum. Ég var einmitt að vona að ég mundi hitta þig hér.`` Ég var mjög undrandi og sagði: ,,Ég skil ekkert í því, ertu virkilega búin að vera að reyna að ná í mig?`` ,,Ég er búin að hringja dögum saman til þín,`` sagði konan ,,og mér var orðið svo í mun að ná til þín út af þessu tiltekna máli.`` Ég vildi ekki gefa mig með þetta og sagði: ,,Hvernig má þetta vera. Ég er búin að vera á skrifstofunni minni hvern einasta dag fram að þessum degi.`` Þá sagði konan: ,,Skrifstofunni, ég hef ekki hringt í skrifstofuna.`` ,,Og hvert hringdir þú?`` spurði ég. ,,Heim til þín, að sjálfsögðu.`` Ég tek það fram að þetta er kona sem vann hjá félagasamtökum sem hafa mikið samband við þingmenn.

Það er ríkjandi viðhorf að þingmaður, eftir að þing fer í einhvers konar hlé, sé ekki lengur í vinnunni. Það er erfitt að breyta þessu viðhorfi. Það er viðhorf sem við reynum að lifa við og þurfum að útskýra stöðuna. Þannig væri á allan hátt betra fyrir ásýnd þingsins að það náist fram sem við höfum verið sammála um í umræðunni í dag.

Nú fer þetta ágæta mál, frú forseti, til nefndar, allshn. Ég ætla að vona að þar verði unnt að taka málið til umræðu og þar muni þykja ástæða til að leggja fram á þingi fyrir sumarhlé 6. maí einhvers konar álit frá nefndinni. Það væri óásættanlegt, eftir þessa ágætu umræðu og undirtektir, ef þetta mál, eins og frumvarpið um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis, mundi bara sofna. En vissulega mundi ég vekja það aftur í haust. Ég þakka fyrir þessa ágætu umræðu.