Fjárhagserfiðleikar dómstólanna og efling sérsveitar lögreglunnar

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 13:33:22 (4724)

2004-03-02 13:33:22# 130. lþ. 74.91 fundur 371#B fjárhagserfiðleikar dómstólanna og efling sérsveitar lögreglunnar# (aths. um störf þingsins), HHj
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[13:33]

Helgi Hjörvar:

Hæstv. forseti. Dómarafélagið hefur vakið athygli á því að huga þurfi að réttaröryggi almennings vegna fjárhagserfiðleika dómstólanna og kemur engum á óvart sem var við fjárlagaumfjöllun í haust. Hæstv. dómsmrh. hefur hins vegar svarað með áburði og svívirðingum um ábyrgðarleysi og ólíkindi dómara og er ráðherra minnkun að ofstopa hans gagnvart dómendum í málinu, en þeir hafa sýnt langlundargeð og hófsemi.

Sama dag tilkynnir svo hæstv. dómsmrh., staurblankur, um verulega eflingu sérsveitar ríkislögreglustjóra, tugmilljónaútgjöld þegar í ár og á næstu árum allt að 250 millj. kr. á ári í þetta gamla gæluverkefni og bernskudraum Björns Bjarnasonar. Spyrja verður hvaða fjárlagaheimildir séu fyrir þeim útgjöldum í fjárlögum yfirstandandi árs því þar er ríkislögreglustjóraembættið skorið niður um 6 millj. Og í ljósi þess að ekki er gert ráð fyrir þessum verkefnum í fjögurra ára áætlun ríkisstjórnarinnar hvernig eigi þá í ljósi fyrirhugaðra skattalækkana að fjármagna þennan leiðangur. Enn fremur hvort sérsveit þessi eigi að taka við einhverjum af verkefnum bandaríska hersins og þá hvaða verkefnum og hvers vegna. Enn fremur hvort yfirlýsingar dómsmrh. um að fjárhagsgrunnur dómstólanna sé tryggður þýði að ekkert eigi að gera í fjárhagsefnum þeirra, og hvort dómsmrh. telji ekki að hinar harkalegu deilur hans við dómendur séu óheppilegar og sýni að öðruvísi þurfi að standa að fjárveitingum til dómstóla og tryggja sjálfstæði þeirra.

Loks verður að spyrja Framsfl. hvort þessi sérsveitarleiðangur sé með vitund og vilja þess flokks og hvernig á því standi að þeir sem hafa vilja fólk í fyrirrúmi skuli ævinlega finna fé í sjóðum ríkisins í sérsveitir og sendiráð en síður í sjúkrahús og samfélagsþjónustu.