Fjárhagserfiðleikar dómstólanna og efling sérsveitar lögreglunnar

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 13:39:53 (4729)

2004-03-02 13:39:53# 130. lþ. 74.91 fundur 371#B fjárhagserfiðleikar dómstólanna og efling sérsveitar lögreglunnar# (aths. um störf þingsins), HHj
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[13:39]

Helgi Hjörvar:

Hæstv. forseti. Komið hefur fram að ríkisstjórnin telur mjög mikilvægt að dómarar fari að fjárlögum og að heilsugæslan í Reykjavík fari að fjárlögum. Hér er þess vegna spurt út af yfirlýsingum dómsmrh. frá því í gær um að hann 1. mars sl. hafi efnt til útgjalda á yfirstandandi ári upp á 60 millj. kr., sem okkur í fjárln. er ekki kunnugt um að neinar heimildir séu fyrir, til að sinna gömlu gæluverkefni sínu sem er íslenskur her hér í landi. Spurt er hvaðan ráðherranum koma heimildir til að lýsa yfir allt að 250 millj. kr. útgjöldum á ári á næstu árum og hvort samstaða sé um það í ríkisstjórninni og hvernig á því standi að hér séu til peningar í verkefni af þessu tagi sem engar heimildir virðast fyrir í fjárlögum og hvort ráðherrann sé að ganga á svig við fjárlög og fara fram úr fjárlögum, og hvort það sé rétt hjá Dómarafélaginu sem það lýsir yfir í gær og er afar mikilvægt, brýnt og aðkallandi verkefni ef réttaröryggi borgaranna er í hættu, og hlýtur að koma til umræðu undir liðnum störf þingsins.

Ég hvet hæstv. dómsmrh. til að gera grein fyrir því hvaða heimildir hann hefur í fjárlögum yfirstandandi árs til að ráðast í þau 60 millj. kr. útgjöld sem boðað er að efnt hafi verið til með aðgerðunum 1. mars sl. og hvort sömu lög gildi ekki um hann og um heilsugæsluna í Reykjavík eða dómstólana í landinu.