Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:11:17 (4742)

2004-03-02 14:11:17# 130. lþ. 74.94 fundur 374#B heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Það er hreint óskiljanlegt hvað stjórnvöld ganga fram af mikilli óbilgirni gagnvart starfsfólki í heimahjúkrun þegar starfsfólkið er ekki að fara fram á neinar nýjar kjarabætur, heldur stendur einungis í varnarbaráttu fyrir þeim kjörum sem það þegar hefur. Það er nauðsynlegt að því sé haldið til haga að aksturssamningar voru vísvitandi notaðir til að bæta starfsfólki heimahjúkrunar upp þann mismun sem Reykjavíkurborg hafði borgað þeim umfram það sem ríkið vildi bjóða þegar það tók við heimahjúkrun á árinu 1991.

Það er því ekkert annað en hýrudráttur þegar rýra á kjör þorra þessa fólks um 300--400 þús. kr. á ári en bjóða því á móti tveggja flokka launahækkun, þ.e. um 60 þús. kr. á ári. Það er grundvallaratriði ef breyta á fyrirkomulagi akstursmála hjá heimahjúkrun og taka upp samninga um rekstrarleigubíla að starfsfólkið sem nú starfar hjá heimahjúkrun fái ígildi þeirrar kjaraskerðingar bætt með öðrum hætti. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Er ráðherrann reiðubúinn til þess, nú þegar hann skorar á starfsfólk úr þessum ræðustól að snúa aftur?

Nei. Harkan og óbilgirnin af hálfu heilbrigðisyfirvalda er svo mikil að meira að segja er hafnað sanngjörnum óskum starfsfólksins sem einungis fer fram á að hluti kjaraskerðingarinnar verði bættur. Þó munaði heilbrigðisyfirvöldin ekkert um að bjóða einkaaðilum 2.400 kr. á tímann fyrir að ganga inn í störf þessa fólks sem fær um 1.300 kr. á tímann með launatengdum gjöldum. Ég skora á hæstv. heilbrrh. að skapa þau skilyrði að hægt sé að aflétta því neyðarástandi sem sjúkir búa nú við og semja við starfsfólk heimahjúkrunar með viðunandi hætti, og það strax. Starfsfólk heimahjúkrunar sparar skattgreiðendum á hverjum degi stórfé með því að gera langveiku fólki kleift að búa eins lengi og kostur er heima, fremur en að vistast á stofnunum sem er líka margfalt dýrara fyrir samfélagið.