Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:17:43 (4745)

2004-03-02 14:17:43# 130. lþ. 74.94 fundur 374#B heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), AtlG
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Atli Gíslason:

Frú forseti. Hér er rætt um afar brýna og mikilvæga heilsugæslu og eins og oft áður er byrjað á öfugum enda, með kerfisbreytingu. Bílar eru teknir á leigu og síðan á að semja.

Bílar í rekstrarleigu eru afar dýrir, þeir eru miklu dýrari en ef maður kaupir bíl sjálfur. Það má færa sterk rök fyrir því að sparnaðurinn sé enginn og til þessa hefur ríkið talið ódýrara að borga kílómetragjald fyrir notkun bíla starfsmanna frekar en að það eigi þá sjálft. Maður spyr: Hvað gengur ríkinu til að stefna afar brýnni, viðkvæmri og persónulegri þjónustu í hættu? Bara það að vinna traust sjúklingsins tekur langan tíma. Þessi sparnaðartillaga, þessi hagræðing er undir dulnefninu --- eins og svo oft áður --- aukin þjónusta. Eins og bílarnir skipti einhverju máli við sjúkrarúmin.

Ef hér er ekki verið að skera niður þá er um að ræða uppskurð þar sem mikilvægustu innri líffæri kerfisins eru numin í burtu. Enn á ný upplifir maður að þessar aðgerðir beinast fyrst og fremst gegn konum, konum sem sinna umönnun sjúkra og aldraðra. Enn og aftur er höggvið að kjörum þeirra. Þetta er kvenfjandsamleg stefna.

Var ekki launamisréttið nægilegt fyrir? Það er nýbúið að dreifa hér skýrslu frá forsrh. um efnahagsleg völd kvenna sem sýnir það glöggt. Er ekki mál að hinni kvenfjandsamlegu stefnu linni, hæstv. heilbrrh.?