Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:19:40 (4746)

2004-03-02 14:19:40# 130. lþ. 74.94 fundur 374#B heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Nú er uppi afleit staða varðandi heimahjúkrun í Reykjavík. Fjöldi starfsfólks hefur hætt störfum og það snertir mjög hagsmuni þeirra fjölmörgu sem þurfa á slíkri þjónustu að halda.

Sú deila sem nú er uppi er fyrst og fremst tilkomin vegna ágreinings um akstursgreiðslur sem starfsmenn hafa notið. Við skoðun á því hvernig greiðslurnar hafa verið framkvæmdar virðist mér að þar sé á ferðinni óeðlilegt fyrirkomulag sem er ekki í samræmi við það sem almennt gerist hjá opinberum starfsmönnum. Starfsmenn hafa fengið greitt fyrir tiltekna fasta vegalengd fyrir hverja vitjun, óháð raunverulegri aksturslengd. Skattyfirvöld hafa í langan tíma gert alls kyns athugasemdir við meðferð akstursgreiðslna og fjmrn. hefur beitt sér fyrir því að koma þessum málum almennt í eðlilegt horf hjá opinberum starfsmönnum.

Sama hlýtur að eiga við í því máli sem hér er til umræðu. Sú almenna regla er í gildi að greiðslur fyrir akstur eru samkvæmt akstursskýrslum þar sem fram kemur hve mikill raunverulegur akstur er hverju sinni. (Gripið fram í: Ekki hjá þingmönnum.) Akstursgreiðslur eiga ekki að vera launauppbætur, hv. þm. (Gripið fram í: Ekki hjá þingmönnum.) heldur eiga þær að bera uppi eðlilegan rekstrarkostnað bifreiða miðað við tiltekinn raunverulegan akstur í þágu starfs. Ég hélt að þetta væri nokkuð ljóst og beini því m.a. til hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar. Hann hlýtur að skilja þetta.

Þess má geta að heilsugæslan hefur sætt ámæli fjmrn. vegna þess fyrirkomulags sem verið hefur í gildi og nú hafa verið gerðar ráðstafanir til lausnar. Um það stendur hins vegar deila málsaðila, m.a. hvernig komið verður til móts við starfsmenn að breyttu fyrirkomulagi.

Þegar tveir deila hafa yfirleitt báðir aðilar eitthvað til síns máls, hæstv. forseti. Ég ætla ekki að gerast dómari í málinu eins og sumir hv. þm. hafa gerst í umræðunni. Hitt er augljóst að niðurstaða verður að nást sem allra fyrst svo Heilsugæslan í Reykjavík geti mannað þau störf sem hér um ræðir til að hinir fjölmörgu skjólstæðingar heimahjúkrunar fái notið þeirrar þjónustu sem stjórnvöld vilja að þeir njóti. Aukið fjármagn hefur verið veitt til þess að efla heimahjúkrun og lýsir það m.a. þeirri áherslu sem lögð er á þessa þjónustu.

Ég vil enda mál mitt á því að hvetja aðila málsins til að finna lausn á málinu sem allra fyrst.