Heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:21:55 (4747)

2004-03-02 14:21:55# 130. lþ. 74.94 fundur 374#B heimahjúkrun á höfuðborgarsvæðinu# (umræður utan dagskrár), Flm. ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:21]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Ræða hæstv. heilbrrh. olli mér miklum vonbrigðum. Það kom fram í svari hans að það var ekki gerð krafa um sparnað á þessum rekstrarlið og það er ekki verið að leita eftir sparnaði, en aftur á móti á það að leiða til aukinnar og betri þjónustu að aka um á kauprekstrarbílum í stað eigin bíla. Það kom ekkert fram í máli hæstv. ráðherra um hvernig hann ætlaði að grípa inn í þessa kjaradeilu eins og hann lýsti í grein sem birtist í Fréttablaðinu um helgina. ,,Grípa verður til aðgerða``, segir ráðherra ,,ef deilan leysist ekki.``

Ljóst er að ef hæstv. heilbrrh. grípur ekki þegar til aðgerða mun fljótlega ríkja algert neyðarástand hjá stórum hluta skjólstæðinga heimahjúkrunar og fjölskyldum þeirra. Starfsemi sjúkrahúsanna mun raskast það mikið að sparnaðaraðgerðir geta ekki gengið eftir. Skerðing heimahjúkrunar hefur þegar haft þau áhrif að Landspítalinn -- háskólasjúkrahús hefur ekki getað útskrifað sjúklinga í heimahús, eins og fram kom í fréttum í dag.

Þetta er kjaradeila sem stéttarfélögin hafa komið að og sýnt fulla ábyrgð og reynt að ná sáttum og óásættanlegt að deila sem þessi um akstursfyrirkomulag skuli bitna á þeim sem síst skyldi.

Heilbrrh. hefur viljað bíða átekta en það verður ekki lengur beðið. Stjórnvöld bera fulla ábyrgð í þessu máli. Heimahjúkrun er ódýr heilbrigðisþjónusta sem á að byggja upp og auka um land allt. Ef heimahjúkrunin er ekki til staðar eiga skjólstæðingar heimahjúkrunar oft engan annan kost en að dveljast á stofnun eða binda fjölskylduna í umönnunarstörf. Þar með erum við komin áratugi aftur í þjónustustigi og nútímaheilbrigðisþjónustu.

Frú forseti. Ástand heimahjúkrunar í tveimur fjölmennustu sveitarfélögum landsins er því ekki hægt að lýsa sem skerðingu á þjónustu. Nær væri að lýsa því sem neyðarástandi þegar meiri hluti hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða hefur hætt störfum.