Yrkisréttur

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:26:55 (4749)

2004-03-02 14:26:55# 130. lþ. 74.5 fundur 613. mál: #A yrkisréttur# (EES-reglur, plöntuyrki o.fl.) frv., landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:26]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 921, sem er jafnframt 613. mál, en um er að ræða frv. til laga um breytingu á lögum nr. 58/2000, um yrkisrétt, með síðari breytingum.

Frumvarp þetta er lagt fram í þeim tilgangi að lögleiða þann hluta tilskipunar 98/44 Evrópuþingsins og ráðsins frá 6. júlí 1998, um lögvernd uppfinninga í líftækni sem fjallar um plöntuyrki og nánar tiltekið þau ákvæði reglugerðar nr. 2100/94 hjá Evrópusambandinu sem vísað er til í tilskipuninni. Einnig er um að ræða nokkrar breytingar sem eru nauðsynlegar vegna umsóknar Íslands um aðild að alþjóðasamningi um vernd nýrra yrkja, UPOV-samningnum, sem síðar verður gerð grein fyrir.

Á fundi sameiginlegu EES-nefndarinnar 31. janúar 2003 var tekin ákvörðun nr. 20/2003 um að breyta XVII. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/44, um lögvernd uppfinninga í líftækni. Samkvæmt stjórnskipun okkar Íslendinga þarf samþykki Alþingis til að staðfesta ákvörðun þessa sem kallar á viðeigandi lagabreytingar hér á landi.

Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu á fyrrgreindri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var lögð fyrir Alþingi á 128. löggjafarþingi 2002--2003. Var þingsályktunin samþykkt.

Tilskipunina ber í meginatriðum samkvæmt efni sínu að lögleiða með breytingum á einkaleyfalögum nr. 17/1991. Plöntuyrki eða plöntuafbrigði eru hins vegar undanþegin ákvæðum einkaleyfalaga nr. 17/1991 en njóta annars konar verndar samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/2000, um yrkisrétt. Er því miðað við að meginefni tilskipunarinnar verði lögfest með breytingum á einkaleyfalögum, en að sá hluti tilskipunarinnar sem fjallar um plöntuyrki verði lögfestur með frv. þessu.

[14:30]

Í þeim ákvæðum tilskipunar 98/44 sem fjalla um plöntuyrki er í flestum tilvikum vísað um efnisatriði til reglugerðar ráðsins nr. 2100/94EB um vernd plöntuafbrigða. Sú reglugerð er þó ekki hluti af EES-samningnum en vegna þess að önnur ákvæði tilskipunarinnar byggja í nokkrum atriðum á þeim skilgreiningum og efnisákvæðum sem þar koma fram er óhjákvæmilegt við lögleiðingu á þessum ákvæðum tilskipunarinnar að taka upp í íslenska löggjöf þau ákvæði reglugerðar nr. 2100/1990EB um plöntuyrki sem tilskipunin vísar til.

Á yfirstandandi þingi, 130. löggjafarþingi Alþingis, hefur iðnrh. nú þegar lagt fram frv. til laga um breytingu á einkaleyfalögum, nr. 17/1991, í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar tilskipunar 98/44. Í frv. iðnrh. er um þau ákvæði tilskipunarinnar sem fjalla um plöntuyrki vísað til þess frv. sem ég mæli nú fyrir.

Jafnframt er í frv. að finna nokkrar breytingar sem eru tilkomnar vegna umsóknar Íslands um aðild að alþjóðasamningi um vernd nýrra yrkja frá 2. desember 1961 með breytingum sem gerðar voru í Genf á árunum 1972, 1978 og 1991, en með þeim er ætlunin að samræma betur ákvæði laganna og samningsins.

Umsókn Íslands um aðild að UPOV-samningnum er nú til meðferðar hjá alþjóðlegri stofnun um framkvæmd samningsins en forsenda þess að umsóknin verði samþykkt er að ákvæði íslenskrar löggjafar um yrkisrétt sé í samræmi við samninginn. Í frv. þessu eru því lagðar til nokkrar breytingar á lögum nr. 58/2000 sem nauðsynlegar eru til að samræma ákvæði laganna um samninginn.

Frumvarpið felur ekki í sér miklar efnislegar breytingar. Fremur er um að ræða að ákvæði verði skýrari og ítarlegri.

Helstu efnisákvæði frv. eru þessi:

1. Gildissvið laganna og hugtakið yrki er skilgreint en lögin gilda um allar ættkvíslir og tegundir plantna, þar með talið blendinga ættkvísla og tegunda, svo og plöntuhópa samkvæmt nákvæmustu þekktu flokkun grasafræðinnar með nánar tilgreindum skilyrðum.

Í 2. gr. frv. er að finna skilgreiningar á hugtökum sem byggt er á víða í tilskipun 98/44 og er því nauðsynlegt að lögfesta þau m.a. til að tryggja að fullt samræmi sé á milli ákvæða einkaleyfalaga nr. 17/1991 annars vegar og laga nr. 58/2000, um yrkisrétt, hins vegar.

2. Sérstakt ákvæði er um undanþágu frá rétti yrkishafa sem gildir eingöngu um bændur og uppskeru af tilteknum tegundum fjölgunarefnis sem þeir hafa ræktað sjálfir á eigin landi sem hefur takmarkaða ræktunargetu og er háð öðrum skilyrðum.

3. Sérstakt ákvæði er um víðtækan rétt til nauðungarleyfis að því er varðar réttindi yrkishafa og gagnkvæm réttindi yrkishafa og einkaleyfishafa að þessu leyti. Svonefnd nauðungarleyfi eru sambærileg og gagnkvæm ákvæði eru í áðurnefndu frv. iðnrh. um breytingu á einkaleyfalögum.

4. Önnur ákvæði frv. fela í sér minni háttar breytingar á orðalagi og lagfæringar á einstökum ákvæðum laganna til þess að frv. samræmist betur ákvæðum tilskipunar 98/44 og UPOV-samningsins.

Í fylgiskjali með frv. er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa þangað. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þeirrar sem fylgir frv.

Hæstv. forseti. Með frv. þessu er einungis verið að gera nauðsynlegar breytingar á lögum nr. 58/2000, um yrkisrétt, til þess að efna samningsskuldbindingar Íslands samkvæmt EES-samningnum eða þann hluta tilskipunar 98/44 sem varðar plöntuyrki og réttindi til þeirra, svo og að gera nauðsynlegar breytingar á lögum til að Ísland geti orðið aðili að UPOV-samningnum. Ísland hefur nú þegar sótt um slíka aðild en umsókn Íslands verður ekki afgreidd fyrr en viðhlítandi breytingar hafa verið gerðar á lögunum. Í ljósi þessara staðreynda tel ég ljóst að óhjákvæmilegt sé að það frv. sem hér liggur fyrir verði að lögum. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um tilurð og efni frv. eða hafa mál mitt lengra að svo stöddu.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.