Yrkisréttur

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 14:57:25 (4758)

2004-03-02 14:57:25# 130. lþ. 74.5 fundur 613. mál: #A yrkisréttur# (EES-reglur, plöntuyrki o.fl.) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér er ekki um að ræða að þingmenn séu eitthvað tornæmir á það sem í frv. stendur. Málið á frv. er afar erfitt aðgöngu, maður þarf að lesa það mjög nákvæmlega og einnig skýringarnar. Hæstv. ráðherra þarf ekki að lesa skýringarnar aftur vegna þess að ræða hans voru athugasemdirnar við frv., ég hlustaði nefnilega gaumgæfilega á ræðuna.

Setjum nú svo að bóndi sem á að vinna eftir þessu, garðyrkjubóndi, fái 5. gr. á þennan hátt. Í athugasemdum við 5. gr. kemur fram að í 2. mgr. sé tekið fram að ákvæði greinarinnar gildi einnig um yrki sem eru að einhverju leyti frábrugðin vernduðu yrki, þ.e. yrki getur verið verndað samkvæmt yrkisrétti þótt það sé frábrugðið vernduðu yrki í einhverjum atriðum ef það er komið af verndaða yrkinu í öllum aðalatriðum. Í 3. mgr. er jafnframt skilgreint hvenær yrki telst komið af öðru yrki í öllum aðalatriðum.

Þegar svona texti er settur í frv. --- og það er auðvitað ekki sök hæstv. ráðherra --- er það ábending til þingsins um að slík vinnubrögð séu ekki viðhöfð. Það verður að vanda lagasetningu meira en hefur verið gert. Það er ekki hægt að ætla þingmönnum að fara í gegnum 1. umr., hæstv. forseti, með plagg eins og þetta, þó svo að lesnar séu útskýringarnar allar og athugasemdir við einstakar greinar, og vel að merkja, þetta sem ég las upp, hæstv. forseti, er athugasemd, það er ekki 5. gr. eins og hún kemur fram í frv. heldur útskýring.

Þetta er ekki hægt. Þetta eru ekki góð vinnubrögð.