Sjóntækjafræðingar

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 15:14:33 (4762)

2004-03-02 15:14:33# 130. lþ. 74.7 fundur 340. mál: #A sjóntækjafræðingar# (sjónmælingar og sala tækja) frv. 11/2004, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[15:14]

Hjálmar Árnason:

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna. Ég ætla rétt að lýsa yfir eindregnum stuðningi við þetta ágæta frv. og lýsa ánægju með störf heilbr.- og trn. í þessu. Þetta minnir óneitanlega á lítið mál sem varð reyndar afskaplega stórt á síðasta kjörtímabili. Það kom til hv. iðnn. og snerti tannsmiði. Þessi mál eru algjörlega sambærileg. Það frv., þar sem var verið að lögvernda starfsheitið tannsmiður og veita tannsmiðum heimild til að mæla fyrir tönnum í munnholi fólks, kallaði á mikinn slag. Margir hverjir, hagsmunaaðilar getum við sagt, voru afskaplega ósáttir við það og höfðu uppi stór orð og svipaðar röksemdir. Kannski var þar á ferð sami ótti og hjá t.d. augnlæknum hvað varðar þetta frv.

Það segir sig sjálft að með frv. er ekki verið að stuðla að því að skerða sjón þjóðarinnar eða draga úr heilsu hennar á nokkurn hátt, ekkert frekar en með því að heimila tannsmiðum að sinna sínu starfi, að sjálfsögðu í nánu samstarfi við tannlækna. Með sama hætti munu sjóntækjafræðingar á grundvelli menntunar sinnar sinna sjónmælingum með afskaplega fullkomnum tækjum eins og kunnugt er. En þeir hafa að sjálfsögðu samráð og samstarf við augnlækna ef á þarf að halda. Ég veit ekki til þess að tannheilsu þjóðarinnar hafi hrakað þó að tannsmiðir hafi fengið þessa heimild og með sama hætti hygg ég að sjón þjóðarinnar muni ekki hraka, eins og hv. síðasti ræðumaður ýjaði að, þó að sjóntækjafræðingar fái heimild til að mæla sjón með afskaplega fullkomnum tækjum. Ég held að þvert á móti muni aðgengi almennings að sjónmælingum fara batnandi. Fólki er að sjálfsögðu afskaplega annt um sjón sína og mun þess vegna leita sér aðstoðar, mælingar. Rétt er að draga það fram, frú forseti, að gerðar eru ákveðnar menntunarkröfur til sjóntækjafræðinga. Gerð er ákveðin ábyrgðarkrafa til þeirra þar sem þeir eru m.a. þjálfaðir í að glöggva sig á einkennum sjúkdóma og ef minnsti vafi leikur á að einhver sjúkdómur kunni að leynast vísa þeir viðskiptavinum sínum eða skjólstæðingum til augnlækna.

Líka má benda á að málið er ekki endilega svo flókið að það sé eingöngu bundið við augnlækna í dag ef fólk vill fá sér brillur. Fólk getur gengið út í næstu bensínsjoppu og keypt sér gleraugu og þar eru hvorki sjóntækjafræðingar, augnlæknar né aðrir. Þar standa gleraugu á standi og fólk velur sér bara eftir smag og behag. Ég tel að með þessu sé verið að rjúfa ákveðna einokun. Verið er að færa ástandið í sambærilegt horf og tíðkast í nágrannalöndum okkar þar sem gerð er ákveðin menntunarkrafa, ákveðin ábyrgðarkrafa til þeirra sem munu sinna þessu mikilvæga starfi. Ég tel enga ástæðu til þess að óttast frv. enda er það þannig úr garði gert að ábyrgð þeirra og skyldur eru afskaplega skýrar. Þvert á móti mun þetta gera almenningi auðveldara að láta mæla í sér sjónina og fara í fyrstu könnun með hana. Þar af leiðandi ætti þetta að vera öllum til hagsbóta. Hér er sem sagt verið að færa þetta í svipað horf og er á Norðurlöndum. Það er verið að rjúfa ákveðna einokun, fela öðrum eftir tilteknum kröfum að sinna þessu mikilvæga hlutverki. Ég vil lýsa eindregnum stuðningi við þetta ágæta frv.