Vextir og þjónustugjöld bankastofnana

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 15:21:46 (4765)

2004-03-02 15:21:46# 130. lþ. 74.8 fundur 323. mál: #A vextir og þjónustugjöld bankastofnana# þál., Flm. BH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[15:21]

Flm. (Bryndís Hlöðversdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um vexti og þjónustugjöld bankastofnana. Tillagan var flutt áður á 128. þingi. Hún komst ekki til umræðu þá og er nú flutt að mestu óbreytt að undanskildu því að tölur eru uppfærðar og sá samanburður sem fram kemur í tillögunni.

Flutningsmenn auk mín eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Margrét Frímannsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Lúðvík Bergvinsson, Guðrún Ögmundsdóttir, Ásgeir Friðgeirsson, Guðmundur Árni Stefánsson og Ásta R. Jóhannesdóttir.

Með tillögunni er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að afla upplýsinga um tekjur banka af vaxtamun og þjónustugjöldum sem hlutfall af meðalstöðu efnahagsreiknings síðastliðin tíu ár og bera þær saman við sams konar tekjur banka annars staðar á Norðurlöndum og í Evrópusambandslöndum. Með hugtakinu ,,meðalstaða efnahagsreiknings`` er vísað til stöðu efnahagsreiknings fyrir árið í heild. Þannig er hægt að nálgast árið í heild í stað þess að kanna aðeins stöðuna á ákveðnum tímapunkti.

Í kjölfar upplýsingaöflunar er gert ráð fyrir að ríkisstjórnin láti rannsaka og greina þær ástæður sem liggja að baki mismunandi tekjum bankastofnana af vaxtamun og þjónustugjöldum eftir löndum. Sérstaklega er gert ráð fyrir að könnuð verði áhrif evrunnar eða réttara sagt evruleysis á þróun vaxtamunar í þeim löndum sem ekki hafa tekið hana upp.

Virðulegi forseti. Dregið hefur verið í efa að virk samkeppni ríki á íslenskum bankamarkaði og er því lagt til að það verði kannað sérstaklega.

Jafnframt er lagt til að könnuð verði þau áhrif sem það hefur á vaxtamun íslenskra banka að hlutfallslega ódýr lán húsbréfakerfisins standa fyrir utan lánakerfi bankanna og enn fremur hvaða áhrif verðtrygging hafi haft á þróun vaxtamunar á framangreindu tímabili.

Frá því að tillagan var fyrst lögð fram hafa ýmsar hræringar átt sér stað á íslenskum bankamarkaði. Hagnaður bankanna á síðasta ári var gríðarlegur og segja má að þeir hafi betur búið sig undir útrás og alþjóðlega samkeppni en áður var. Einkavæðing ríkisbankanna hefur þannig náð fram markmiðum sínum að hluta en því miður er ein mikilvæg undantekning þar á. Eitt af markmiðunum var að sala hlutabréfa í ríkisbönkunum ætti að leiða til aukins sparnaðar almennings, það átti að ná fram hagræðingu á fjármagnsmarkaði en tryggja um leið virka samkeppni á markaðnum til að ná fram ódýrari þjónustu.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um einkavæðingu ríkisfyrirtækja sem kom út nýverið segir um þetta atriði, með leyfi forseta:

,,Íslenski fjármálamarkaðurinn er nú samkeppnishæfari, sterkari til útrásar og skilvirkari en hann var 1998. Nú hafa t.d. nokkur fjármálafyrirtæki burði til að sækja fram á erlendum mörkuðum. Þrátt fyrir sterkari fjármálastofnanir eru fáar vísbendingar um að þjónustugjöld viðskiptabankanna hafi lækkað verulega.``

Með öðrum orðum: Hagur almennings hefur ekki vænkast eins og stefnt var að í kjölfar þessara breytinga. Hagnaður bankanna var gríðarlegur á síðasta ári og er það vel. En það er líka eðlilegt að neytendur spyrji í kjölfar slíkra tíðinda: Hvenær er komið að okkur að njóta ávaxtanna?

Í fréttum hefur nýverið verið fjallað um samanburð sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja létu gera um þjónustugjöld banka hér og á Norðurlöndum. Samkvæmt þeirri könnun var samanburðurinn hagstæður fyrir íslenska banka og mætti halda að einhverjar breytingar væru að eiga sér stað að þessu leyti fyrir íslenska neytendur. Við höfum líka könnun sem Samtök iðnaðarins létu gera árið 2001 þar sem niðurstaðan er þvert á móti sú að íslenska bankakerfið sé dýrt og óhagkvæmt. Einnig má nefna könnun sem Samtök bankastarfsmanna létu gera sem segja má að sé í nokkru samræmi við nýjustu könnunina sem Samtök banka og verðbréfafyrirtækja létu gera. Við höfum nokkrar misvísandi kannanir sem hafa verið gerðar af hinum og þessum aðilum á þessu kerfi.

Slíkar kannanir eru gott innlegg í umræðuna en hins vegar er engan veginn hægt að fullyrða neitt um hver þróunin er í raun og veru í kjölfar slíkra kannana. Ef við tökum t.d. könnun Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja á þjónustugjöldum þá eru t.d. bornar saman 27 tegundir þjónustugjalda meðan til eru margfalt fleiri tegundir slíkra gjalda. Þjónustugjöld eru í mismunandi gerðum sem skipta fleiri tugum, 70--80 eða eitthvað slíkt. Það gefur augaleið að við, íslenskir neytendur, höfum ekki svigrúm til að meta á hvern hátt þessi samanburður er marktækur. Reyndar eru Neytendasamtökin að skoða og rýna í þessa könnun og athuga á hvern hátt hún er marktæk. Það verður forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr þeirri skoðun.

Hver sem niðurstaðan verður bendir sá ágreiningur sem uppi hefur verið á milli ýmissa aðila um íslenska bankakerfið til þess að þörf sé á raunhæfum og ítarlegum samanburði sem unninn sé af hlutlausum aðila. Það, hæstv. forseti, er einmitt lagt til að gert verði í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Hér er gert ráð fyrir að Alþingi feli ríkisstjórninni að standa fyrir slíkum samanburði og taki tillit til ýmissa þátta sem gætu haft áhrif í þessum efnum.

Það er trú mín, hæstv. forseti, að nú sé meiri skilningur en oft áður á því að vinna að slíkum samanburði, ef marka má umfjöllun upp á síðkastið. Ég bind ekki síst vonir við að hæstv. utanrrh., sem brátt mun leiða ríkisstjórnina ef að líkum lætur, muni taka vel í samþykkt tillögunnar. Það ræð ég m.a. af orðum hans á ársfundi Viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands nýverið þar sem hann ræddi um þetta efni. Hann sagðist vilja sjá vexti til neytenda og þjónustugjöld lækka meira hjá bönkunum í framtíðinni í stað geysilegs hagnaðar bankanna. Hin nýja íslenska stefna er ekki dýrkun gróðans, sagði hæstv. utanrrh. og taldi þurfa að setja nýfengnu frelsi umgjörð.

Ég get tekið undir þau orð, hæstv. forseti. Hagnaður og góð afkoma fyrirtækja er sannarlega undirstaða framfara en neytendur eiga að njóta ávaxtanna.

Í grein sem Ólafur Klemensson hagfræðingur ritaði í Vísbendingu nýverið, 23. janúar sl., segir, með leyfi forseta:

,,Í bankakerfinu er veitt þjónusta og afurðir seldar til að mæta fjármálaþörf fyrirtækja, stofnana, einstaklinga og heimila í landinu. Þannig gegnir bankakerfið mjög mikilvægu lykilhlutverki í efnahagslífinu. Þýðingarmikið er að þessi þjónusta sé veitt á sem hagkvæmastan hátt, að virk samkeppni ríki á bankamarkaði, að fjármálastofnanir séu samkeppnishæfar við erlendar fjármálastofnanir og að viðskiptamenn þurfi ekki að greiða bankaþjónustu hærra verði en annars staðar gerist. Allt eru þetta nauðsynlegar forsendur fyrir því að íslenska efnahagslífið fái þrifist og dafnað og sé samkeppnishæft á alþjóðlega vísu. Þá er ekki síður mikilvægt að fjármálakerfið sé öflugt og bankar og sparisjóðir séu fjárhagslega traustar stofnanir og skili eigendum sínum hæfilegri arðsemi að teknu tilliti til rekstrarfyrirkomulags og almennrar arðbærni fyrirtækja í hagkerfinu. Af mörgu má vera ljóst að íslenskt bankakerfi fullnægir ekki nema hluta ofangreindra þátta.``

Ég get tekið undir hvert orð Ólafs Klemenssonar hagfræðings í þessari ágætu grein í Vísbendingu. En hvers vegna hafa íslenskir neytendur ekki notið hins mikla hagnaðar bankanna í meiri mæli en raun ber vitni? Hvers vegna er íslenska bankakerfið jafndýrt og raun ber vitni?

Bent hefur verið á að orsakirnar kunni að felast í óhagkvæmni smæðar hins íslenska markaðar, eins og Ólafur Klemensson veltir reyndar fyrir sér í fyrrnefndri grein. Þéttleiki byggðar, landfræðilegar ástæður og efnahagslegar ástæður eru allt þættir sem skipta máli. Eignarhald og rekstrarfyrirkomulag hafa líka sín áhrif og íslensku bankarnir skera sig úr í erlendum samanburði þegar það er skoðað. En eignarhald tveggja viðskiptabankanna var í höndum ríkisins þar til fyrir skömmu. Auk þess búa sparisjóðirnir við sérstakt fyrirkomulag og eignarhald. Það má því leiða að því líkur að hér á landi hafi forsendur fyrir virkri samkeppni ekki verið til staðar fyrr en í seinni tíð. Það kann að vera áhrifavaldur.

[15:30]

Eitt af því sem lagt er til í tillögunni sem hér er til umræðu er að skoðað verði samkeppnisumhverfi á bankamarkaðnum, eða öllu heldur þær vísbendingar sem fyrir hendi eru um að þar ríki í raun fákeppni og að staða neytenda sé veik.

Í nýlegri skýrslu norrænu ráðherranefndarinnar sem nefnist á íslensku ,,Bankaþjónusta -- á hvaða kjörum?`` er sett fram ýmis hörð gagnrýni á bankaþjónustu á Íslandi. Þar er m.a. gangrýnt að viðskiptamenn bankanna hafi litla eða enga möguleika til að hafa áhrif á samningsskilmála útlána. Skilmálarnir eru samdir einhliða af bönkunum og taka þar af leiðandi einkum mið af sjónarmiðum og hagsmunum bankanna. Til að mynda má benda á að réttur banka til að breyta vöxtum, kostnaði og öðrum þjónustugjöldum er mjög takmarkaður annars staðar á Norðurlöndum. Á Íslandi taka bankar sér hins vegar þann rétt að gera breytingar án fyrirvara og án þess að viðskiptamenn eigi raunverulega möguleika á því að bregðast við. Getur verið að hér sé komin ein skýringin á þeim háu vöxtum sem viðgangast í útlánastarfsemi íslensku bankanna? Það er a.m.k. ljóst að aðhald viðskiptamanna er lítið sem ekkert og skapar það vissulega hættu á að bankarnir seilist of langt í töku vaxta og þjónustugjalda. Það er þekkt staðreynd í allri markaðsstarfsemi að hafi aðili yfirburðastöðu í viðskiptum hefur hann tilhneigingu til að vernda hagsmuni sína eins vel og honum er unnt á kostnað hins aðilans, sem í þessu tilviki er almenningur þessa lands.

Það er ekki nóg með að samningsskilmálar bankanna séu samdir einhliða af bönkunum hér á landi. Þeir eru meira og minna samhljóða milli bankastofnana í öllum helstu atriðum. Í þessu er fólgin eins konar samtrygging íslenskra bankastofnana. Viðskiptamaður hefur í fá hús að vernda sé hann ósáttur. Bankarnir geta því í raun farið sínu fram án þess að eiga raunverulega á hættu að tapa miklum viðskiptum.

Hæstv. forseti. Með tillögunni fylgir samanburður á ýmsum kjörum sem bankar hér á landi bjóða yfir tiltekið tímabil. Þar kemur í ljós svo ekki verður um villst að það er harla lítill ávinningur af því fyrir neytendur í íslensku bankakerfi að færa sig á milli stofnana, ef þeir vilja skipta um þjónustustofnun. Enda kemur í ljós þegar hreyfanleiki er skoðaður í bankakerfinu að hann er afar lítill þrátt fyrir að litlar hömlur séu í raun og veru á hreyfanleika viðskiptamanna á Íslandi. Þegar tillagan er samin er hann ekki meira en um 5%. Ástæðan er einföld, það hefur lítið upp á sig að hreyfa sig á milli bankastofnana á Íslandi eins og umhverfið hefur verið hingað til.

Virðulegi forseti. Í athugasemdum með tillögunni er ýmislegt rakið því til stuðnings og mikilvægi þess að slík úttekt sé gerð sem hér er lögð til. Við þurfum ekki að hafa mörg orð um þá gríðarlegu skuldabyrði sem fjölskyldurnar í landinu búa við og fyrirtækin. Það er því augljóst að hvert vaxtastig hefur gríðarlega mikið að segja í því samhengi. Það er líka mikilvægt að við skoðum kosti og galla þá sem fylgja því að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil, að við brjótum það til mergjar hvaða fórnarkostnað það hefur í för með sér að halda úti íslensku krónunni og vega og meta líka kostina sem vissulega eru samfara því að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil.

Lagt er til að verðtryggingin sé skoðuð líka, dregin inn í þennan samanburð, og eins sá veruleiki sem við búum við að hafa hlutfallslega ódýr lán íbúðalánasjóðskerfisins fyrir utan bankakerfið, sem bankarnir hafa margir hverjir bent á að geti verið áhrifavaldur í þessum efnum.

Virðulegi forseti. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu sem tillagan mælir fyrir um verði lokið innan hálfs árs frá því að tillagan verður samþykkt af Alþingi. Lækkun vaxta er eitt brýnasta hagsmunamál neytenda hér á landi, fólksins í landinu og fyrirtækjanna, ásamt lækkun matvælaverðs, en eins og við vitum hefur Alþingi samþykkt að gerður verði samanburður á matvælaverði hér á landi og í Evrópulöndunum. Segja má að sú tillaga sem hér er lögð fram sé í anda þeirrar tillögu sem var samþykkt á hinu háa Alþingi. Þessir hagsmunir krefjast þess einfaldlega að gengið sé rösklega til verks og sá skammi tími sem ætlaður er í verkefnið endurspeglar það.

Hæstv. forseti. Ég bind miklar vonir við að það ríki skilningur fyrir málinu á hinu háa Alþingi. Ég legg líka áherslu á það í lokin að hér er verið að leggja til að gerður verði hlutlaus samanburður í stað þess að hagsmunaaðilar beggja megin borðs í þessu kerfi geri sínar eigin kannanir sem einungis hafa orðið til þess að gera neytendur á íslenskum bankamarkaði enn þá ráðvilltari en áður þar sem kannanirnar vísa hver gegn annarri. Hver er hæfari en einmitt ríkisstjórn Alþingis í kjölfar slíkrar samþykktar að gera slíkan hlutlausan samanburð?