Vextir og þjónustugjöld bankastofnana

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 15:36:07 (4766)

2004-03-02 15:36:07# 130. lþ. 74.8 fundur 323. mál: #A vextir og þjónustugjöld bankastofnana# þál., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Hæstv. forseti. Ég á sæti í efh.- og viðskn. sem fær þessa þáltill. til meðferðar og þarf því kannski ekki að tjá mig mjög mikið um hana hér. Ég vil samt segja nokkur orð við þessa 1. umr. um málið.

Ég er sammála í öllum megindráttum því sem fram kemur í tillgr., en ég get ekki alveg tekið undir með 1. flm. að ríkisstjórninni sé endilega treystandi til að gera hlutlausa úttekt (Gripið fram í: Klofningur í Samfylkingunni?) að því er varðar tekjur banka af vaxtamun og þjónustugjöldum hér á landi. Hv. frsm. vísar réttilega til þess að kannanir sem gerðar hafa verið eru misvísandi, en ég vildi þó heldur sjá í tillgr. að einhver hlutlaus aðili væri fenginn til að gera slíka úttekt og ríkisstjórnin fengi leiðsögn í tillgr. sjálfri hverjir það væru sem ættu að framkvæma úttektina. Ég get alveg séð fyrir mér að Hagfræðistofnun, Seðlabanki eða jafnvel erlendur aðili væri fenginn til að gera slíka úttekt, sem er orðið mjög brýnt, herra forseti, að fá það rétta upp á borðið í þessu efni.

Engu að síður tala tölurnar sem við höfum varðandi vaxtamuninn í bankakerfinu sínu máli og ekki síst þjónustutekjurnar. Ég er alveg sannfærð um að þá minnkun sem við höfum þó verið að sjá á vaxtamun á síðustu missirum hafa bankarnir verið að bæta sér upp með auknum þjónustutekjum.

Það er engu líkara, hæstv. forseti, en bankarnir valsi raunverulega um eins og ríki í ríkinu. Það getur auðvitað ekki gengið að gífurlegur hagnaður þeirra renni bara í vasa eigenda meðan lántakendur eru blóðmjólkaðir, enda sjáum við að auknar skuldir heimilanna á síðustu árum og missirum má ekki síst rekja til mikils vaxtakostnaðar og hárra þjónustugjalda.

Hæstv. forseti. Það er ekkert betra orð til yfir það sem við erum að sjá á fjármálamarkaðnum núna en græðgisvæðing sem tröllríður fjármálamarkaðnum og er hálfóhugnanleg og hefur ásamt fleiru leitt til mikillar gliðnunar í þjóðfélaginu. Við erum að sjá háar tölur sem bankarnir raka inn fyrir eigendur sína í hagnaði og ástæða til að fara ofan í það, t.d. hve þóknanatekjurnar hafa vaxið. Ég er með fyrir framan mig frá Landsbanka Íslands samanburð á þjónustutekjum 1999 og fyrir árið 2003. Við sjáum að á árinu 1999 var hlutfall þóknanatekna af launakostnaði 66,67%, en á árinu 2003 er það yfir 100%. Með öðrum orðum borguðu þóknanatekjurnar 66% af launakostnaði Landsbankans árið 1999 en eru farnar að greiða að fullu launakostnaðinn á árinu 2003. Þóknanatekjurnar standa því undir laununum.

Við sjáum það líka af þeim hagnaði sem kemur fram eins og hjá Íslandsbanka nýverið, að arðsemi eigin fjár upp á rúmlega 30% er að verulegu leyti fengin með gífurlega háum þjónustutekjum og allt of háu vöxtum. Það er raunverulega orðið svo í öllum bönkunum að þóknanatekjurnar standa alfarið undir launakostnaði.

Því verður, þegar menn eru að berja sér á brjóst í bankakerfinu og tala um minni vaxtamun, að skoða málið í samhengi við þóknanatekjurnar.

Ég tel ástæðu til að vitna í það sem fram kom nýlega um afskriftir í bönkunum. Þar kom fram hjá Tryggva Þór Herbertssyni, forstöðumanni Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, að íslenskir bankar afskrifa fjórum sinnum meira en bankar á Norðurlöndum og ef bankarnir mundu velja betur hverjum þeir lána hefðu þeir meira svigrúm til að lækka vexti. Hann segir að það sé ábyrgðarmannakerfið sem haldi uppi vöxtunum. Ég tel ástæðu til að minna á í því sambandi, hæstv. forseti, að þingflokkur Samf. undir forustu Lúðvíks Bergvinssonar hefur ár eftir ár flutt tillögu um að ábyrgðarmannakerfið yrði endurskoðað.

Tryggvi Þór segir í grein sinni að að meðaltali hafi afskriftir norrænna banka verið 0,13% af heildareignum árið 2002, en hér á landi er hlutfall afskriftanna tæplega fimm sinnum hærra. Síðan er vitnað til þess að það stefni í metár í fjölda gjaldþrota hér á landi, þ.e. á sl. ári. Hann telur að ef tekið yrði upp ábyrgðarmannakerfi og byggt meira á viðskiptasögu hvers og eins mundi það draga úr afskriftum og þar með mynda svigrúm til að lækka vexti.

Ég hef lagt fsp. fyrir hæstv. viðskrh. sem hann hefur ekki enn svarað um afskriftir viðskiptabankanna samanborið við afskriftir norrænna banka og hvað megi ætla að vaxtamunur inn- og útlána geti minnkað mikið ef afskriftir hér á landi væru sambærilegar við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndum að meðaltali. Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því hér.

Maður verður að vona að hæstv. viðskrh. fari að sjá að sér og geri gangskör að því að setjast yfir það, með þar til bærum aðilum, að skoða hvort ekki sé hægt að breyta ábyrgðarmannakerfinu. Ég vil minna á í því sambandi að Neytendasamtökin hafa kallað mjög eftir því að ábyrgðarmannakerfið yrði endurskoðað. Fjöldi heimila hefur farið mjög illa á þessu ábyrgðarmannakerfi og misst aleigu sína með því að skrifa undir hjá börnum sínum, vinum eða venslamönnum. Í þeirri leið sem við viljum taka upp með því að leggja af ábyrgðarmannakerfið yrði komið í veg fyrir harmsögur fjölda fjölskyldna í landinu vegna þeirrar ábyrgðar sem fólk þarf nú að gangast undir ef það tekur lán.

Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég fagna mjög þessari tillögu og þakka hv. 1. flm. fyrir að hafa haft forgöngu um að flytja málið inn á þing og vænti þess að hv. efh.- og viðskn. afgreiði það fljótt og vel á þessu vorþingi.