Vextir og þjónustugjöld bankastofnana

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 16:22:29 (4773)

2004-03-02 16:22:29# 130. lþ. 74.8 fundur 323. mál: #A vextir og þjónustugjöld bankastofnana# þál., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[16:22]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Enginn hefur verið að halda því fram að hér ætti að taka upp evruna án þess að ganga í Evrópusambandið. Það hefur verið hluti af umræðunni um að skoða bæri þá hluti einnig.

Hins vegar er íslenska hagkerfið að taka upp evruna framar öðrum gjaldmiðlum alla daga. Íslendingar eru að auka skuldir sínar í þeim gjaldmiðli og hafa gert ótæpilega á undanförnum missirum og niðurstaðan virðist vera sú að evran hafi þar yfirhöndina. Það mun því að öllum líkindum ekki verða okkar val hvort hér verði evrusvæði heldur með hvaða hætti því verði fyrir komið. Það að íslenska krónan verði á einhvern hátt notuð til þess að borga út íslenskum launamönnum og í einhverjum viðskiptum smærri fyrirtækja í landinu en annar gjaldmiðill notaður meira og minna í öðrum viðskiptum og öllum grunnfjárfestingum fyrirtækja í landinu, er framtíð sem er býsna erfitt að átta sig á að geti gengið. Því þarf þessi umræða að komast áfram og menn þurfa að skilgreina fyrir sér hvaða möguleikar eru á því að leysa þessi vandamál og þeir möguleikar sem menn sjá einfaldasta í því efni er auðvitað að ganga í Evrópusambandið.

Hins vegar er engin ástæða til að útiloka aðra möguleika. Hv. þm. bendir á að það geti vel verið að við vildum taka upp einhverja aðra mynt en evruna, ekki mun ég kasta því frá að það megi skoða líka. Hv. þm. vill greinilega frekar að við skoðum dollarann eða pundið eða jenið, hann nefndi það líka, það mætti skoða þetta allt saman að mínu viti. Það sem ekki má er að skoða þetta ekki.