Vextir og þjónustugjöld bankastofnana

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 16:24:43 (4774)

2004-03-02 16:24:43# 130. lþ. 74.8 fundur 323. mál: #A vextir og þjónustugjöld bankastofnana# þál., JBjarn (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[16:24]

Jón Bjarnason (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ekki ætlun mín að fara í einhverjar efnislegar umræður um alþjóðlega fjármálamarkaði. Það sem ég var fyrst og fremst að vekja athygli á varðandi þáltill. sem hér er til umfjöllunar var að ég hefði talið að tillagan hefði verið betri ef talað hefði verið um stöðu og gengi og vexti á fjármálamörkuðum erlendis því staða dollarans, vextir og kjör í viðskiptum í Bandaríkjunum hefur líka áhrif hér og þess vegna staða pundsins eða staða jensins eftir því hvernig það er. Tillagan hefði að mínu viti verið betri ef horft hefði verið til stöðu þeirra mynta erlendis sem hafa svo sannarlega áhrif á vexti, fjármagn og fjármagnskostnað hér og það sem tillagan fjallar um, þ.e. um vexti og þjónustugjöld bankastofnana hér á landi. Því hefði passað illa að troða því inn sem meginmarkmiði í tillögunni að kanna kosti þess að taka upp evruna.

Ég ítreka það, virðulegi forseti, að tillagan hefði að mínu viti verið betri ef hún hefði verið opnari og að talað hefði verið um áhrif annarra gjaldmiðla og stöðu þeirra á alþjóðamörkuðum á þessa þætti í íslensku fjármálalífi.