Stjórnunar- og eignatengsl í viðskiptalífinu

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 17:12:58 (4783)

2004-03-02 17:12:58# 130. lþ. 74.10 fundur 336. mál: #A stjórnunar- og eignatengsl í viðskiptalífinu# þál., BÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[17:12]

Birgir Ármannsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil taka fram að ég er ekki á þessu stigi að lýsa yfir andstöðu við tillögu hv. 5. þm. Norðaust. Ég velti þessu hins vegar fyrir mér í ljósi þess að þær hröðu breytingar sem eiga sér stað í viðskiptalífinu eru kannski einmitt það hraðar að það getur verið harla lítið gagn af upplýsingum sem eftir atvikum eru orðnar nokkurra mánaða eða ára gamlar.

Til viðbótar við það sem ég nefndi áðan með fjölmiðlana má geta þess að sú breyting hefur átt sér stað frá 1993 að í fyrsta lagi er komin skýrari hefð á starfsemi samkeppnisyfirvalda sjálfra. Það eru tilkomnar nýjar eftirlitsstofnanir eins og Fjármálaeftirlitið sem hafa viðamiklu eftirlitshlutverki að gegna varðandi fjármálamarkaðinn. Fjármálafyrirtækin eru mikill gerandi í mörgum þeirra viðskipta sem snerta það svið sem hv. þm. fjallar um í tillögu sinni. Þar að auki höfum við nýja löggjöf á mörgum sviðum eins og um starfsemi fjármálafyrirtækja, um Kauphöll og á fjölmörgum öðrum sviðum sem gerir eftirlit í rauninni virkara en var á þeim tíma þegar upphaflega hugmyndin um skýrsluskrif Samkeppnisstofnunar kom fram árið 1993.

Ég vildi vekja athygli á þessu og eins finnst mér rétt að fram komi að viðskrh. hefur skipað nefnd til að fara yfir þessi mál í ljósi þess að fram hafa komið sjónarmið um að það gæti hringamyndunar með óæskilegum afleiðingum á ákveðnum sviðum viðskiptalífsins. Sú nefnd er að störfum og á eftir atvikum, eftir því sem mér er kunnugt um, að skila niðurstöðu fyrir haustið. Og ég held að nefndarstarf af því tagi og vinna af því tagi sem er í sjálfu sér ekki með sama sagnfræðilega sniðinu og þessi tillaga gerir ráð fyrir sé miklu gagnlegri leið til að takast á við þessi mál.