Útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 17:56:54 (4790)

2004-03-02 17:56:54# 130. lþ. 74.11 fundur 473. mál: #A útsendingar sjónvarps og hljóðvarps um gervitungl# þál., MÞH
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[17:56]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla svo sem ekki að hafa mjög langt mál um þessa ágætu þáltill. Ég vil bara lýsa því yfir að ég fagna henni og hlakka til að sjá hver niðurstaðan verður. Ég vona að þáltill. fljúgi í gegn. Sjö þingmenn frá Sjálfstfl., tveir frá Framsfl., þrír frá Samfylkingu, einn frá Vinstri grænum og einn frá Frjálsl. eru flutningsmenn þáltill.

Frú forseti. Það verður mjög áhugavert að sjá hver niðurstaðan verður, hver árlegur kostnaður er við það að senda sjónvarpsefni gegnum gervihnött og hvað það kostar að stofna jarðstöð til að sjá um þetta.

Það er nú einu sinni svo að fjarskiptatækni hefur fleygt mjög hratt fram á undanförnum árum. Margir geta tekið á móti gervihnattasendingum í dag, t.d. fólk sem býr erlendis og svo líka skulum við ekki gleyma fiskiskipaflotanum. Þar hefur mikil tæknivæðing átt sér stað á undanförnum missirum, sérstaklega um borð í þeim skipum sem stunda úthafsveiðar langt frá landi á fjarlægum miðum oft og tíðum. Langflest þessara skipa, leyfi ég mér að fullyrða, eru nú komin með búnað til að taka á móti sjónvarpsefni í gegnum gervihnött. Þarna vinna fleiri hundruð manns á hverju einasta ári langt frá heimilum sínum og vilja svo sannarlega fá að fylgjast með því sem gerist heima á Íslandi.

Hvað varðar Íslendinga erlendis sem ég tel líka vera mjög mikilvægan hóp ættum við alls ekki að gleyma. Þeir eru mjög margir, mörg þúsund, stendur í greinargerð með þessari þáltill. Við ættum heldur ekki að gleyma þeim. Þeir hafa eflaust áhuga á því að geta fylgst með fréttum og öðru efni. Við skulum heldur ekki gleyma því að þetta fólk á börn. Mörg þúsund íslensk börn alast upp erlendis. Uppeldisgildi þess að þau börn geti fengið að horfa á íslenskt sjónvarpsefni, horfa á sjónvarpsefni á íslenskri tungu, er að ég tel mjög mikilvægt. Við værum svo sannarlega að fjárfesta í framtíðinni með því að leggja það sem við getum af mörkum til að þessi börn læri móðurmál sitt. Ég veit það sjálfur af eigin reynslu að börn sem búa langdvölum erlendis geta oft átt hálferfitt með að læra íslenskuna og ruglast kannski oft í ríminu, sérstaklega þegar þau eldast. Þetta gæti sem sagt, frú forseti, stuðlað mjög að því að bæta úr þessu.

Eins og ég sagði áðan í upphafi máls míns finnst mér þetta mjög jákvætt í það heila og ég er nokkuð viss um að það er mjög góður stuðningur við þetta í mínum flokki. Ég vona svo sannarlega að þáltill. fái jákvæða umfjöllun hjá menntmn. og fljúgi síðan hreinlega í gegnum þingið. Það er löngu kominn tími til að gerð verði gangskör að þessu máli og við fáum að vita hverjar tölurnar eru þannig að við getum haldið áfram fram á veginn í þessum efnum sem ég tel mikið þjóðþrifamál.