Aukatekjur ríkissjóðs

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 18:06:06 (4793)

2004-03-02 18:06:06# 130. lþ. 74.12 fundur 509. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (skráning félaga) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[18:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel það frv. allrar athygli vert sem þeir hv. þm. Sjálfstfl. flytja hér og varðar það að lækka nokkuð gjaldtöku sem fer samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Þessi gjöld voru lögð á með reglugerðarákvæðum á árum áður, sem þótti ekki góð latína, en hafa verið færð inn í lög sem er eðlilegt. Auðvitað er svona gjaldtaka alltaf umdeilanleg og álitamál, hvort á hana ber að líta sem þjónustugjöld í hreinum skilningi þess orðs eða hvort um er að ræða að einhverju leyti tekjustofn fyrir ríkissjóð. Sennilega gildir hvort tveggja í þessu tilviki, einhver kostnaður er auðvitað samfara því sem snýr að opinberum aðilum í þessu sambandi en ekki endilega sá sem gjaldtakan felur í sér samkvæmt lögum.

Ég er að mörgu leyti sammála hugsun háttvirtra flutningsmanna, að það ber að halda kostnaði samfara stofnun nýrra fyrirtækja í lágmarki og hafa hann eins lágan og nokkur kostur er ef menn vilja yfir höfuð taka gjöld fyrir slíkt. Í sjálfu sér væri ekkert að því að opinberir aðilar bæru af því einhvern kostnað að skrá ný fyrirtæki þó að endurgjalds fyrir þann kostnað yrði ekki krafist. Það mætti líta á það sem stuðning við nýsköpun og þróun í atvinnumálum. Það er mjög nálægt hugsun minni í þessum efnum, að hið opinbera eigi einmitt að leggja sitt af mörkum, m.a. með því.

Ég tel miklu æskilegra að þeir fjármunir sem menn hafa handa á milli renni til þess að byggja upp eigið fé fyrirtækjanna. Það sé þá frekar haft í huga, þegar lágmarks hlutafjárframlag í nýju hlutafélagi eða einkahlutafélagi, sem oftast er, er ákvarðað, að önnur gjaldtaka eða annar kostnaður sé hverfandi. Það litla fé sem menn kunna að hafa handa á milli, auðvitað er æskilegt að menn hafi eitthvað þegar þeir leggja af stað með nýja atvinnustarfsemi, gagnist við uppbyggingu fyrirtækisins sjálfs en fari ekki strax í gjöld og kostnað við stofnun fyrirtækisins.

Ég minni í þessu sambandi, herra forseti, á að fyrir þessu þingi liggur og er reyndar til umfjöllunar í iðnn. tillaga frá þingflokki Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um aðgerðir til stuðnings atvinnurekstri í litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Í þeirri tillögu er sérstaklega vikið að stofnun nýrra fyrirtækja og nýsköpun í atvinnulífinu. Liður í tillögunni er að farið verði yfir það hver þessi kostnaður sé og skoðaðar aðgerðir til þess að draga úr honum eða hafa hann í lágmarki. Það er í raun nákvæmlega það sem þetta frv. kemur inn á. Einn þáttur þessa máls er skráningarkostnaðurinn eða stofnkostnaðurinn við nýskráningu fyrirtækja. Hér eru ekki stórir fjármunir á ferð í þeim skilningi að það komi mikið við afkomu ríkissjóðs að þessi gjöld verði eitthvað lækkuð. Ég er því að mörgu leyti mjög hallur undir það að breytingar af þessu tagi verði gerðar. Ég þekki málið vel af eigin raun og hef í nokkrum tilvikum komið að því að aðstoða fólk sem er að koma á fót fyrirtækjum, er að reyna fyrir sér í atvinnurekstri eða með nýsköpun í atvinnumálum. Það munar um hverja krónu í þessum efnum, þegar menn með tvær hendur tómar eða því sem næst, reyna að komast af stað með atvinnurekstur sem oftast er utan um þeirra hugmynd eða hugmyndir í viðskiptalífinu. Þeim krónum sem menn þá hafa í höndunum er miklu betur varið í verkefnið sjálft en í kostnað af þessu tagi.

Það er aðeins einn ágalli á þessu frv. Hann er sá að það er svolítið seint fram komið. Þessar tillögur hefðu hv. þingmenn auðvitað þurft að flytja í aðdraganda fjárlagaafgreiðslunnar. Tekjur af þessum gjöldum eru komnar inn í fjárlög yfirstandandi árs, stilltar af eins og forsendur fjárlagafrv. gera ráð fyrir. Að sjálfsögðu er mönnum frjálst að leggja til að þessu sé breytt. Það mætti þá í öllu falli hugsa sér, ef ekki er stuðningur við að taka upp forsendur fjárlaga yfirstandandi árs að þessu leyti, að gildistaka frv. sé miðuð við næstu áramót á eftir. Þetta kæmi þá inn í fjárlagagerðina á þessu ári, að tekjur af þessum sökum verði kannski eitthvað minni á árinu 2005.

Ég leyfi mér að nefna þetta hér, ekki til að drepa málinu eitthvað á dreif eða að vera með stríðni í garð flutningsmanna, sem að vísu eru stjórnarþingmenn og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og bera ábyrgð á afgreiðslu fjárlagafrv. En ég býst við því að hæstv. fjmrh. gæti, væri hann viðstaddur, bent á að það sé a.m.k. búið að ganga frá þessu máli fyrir yfirstandandi ár.

Ég tek eindregið undir þá hugsun sem á bak við frv. er og er meira en tilbúinn að leggja því lið fyrir mitt leyti. Ég mæli þar ugglaust fyrir hönd þingmanna Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, að skoða breytingar af því tagi sem frv. gengur út á.