Aukatekjur ríkissjóðs

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 18:12:08 (4794)

2004-03-02 18:12:08# 130. lþ. 74.12 fundur 509. mál: #A aukatekjur ríkissjóðs# (skráning félaga) frv., Flm. GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[18:12]

Flm. (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en þakkað hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir stuðninginn. Það má kannski segja að stundum fái maður stuðning úr óvæntri átt en hann er ekki verri fyrir það, alls ekki. Þótt þeir stjórnmálaflokkar sem við erum í séu alla jafna hugmyndafræðilega hvor á sínum pólnum í afstöðu sinni á Alþingi Íslendinga þá eru samt mörg mál sem menn geta verið sammála um. Ég heyri ekki betur en að hér sé eitt slíkt á ferðinni.

Í ágætri tölu hv. þm. um frv. fann hann þann eina ágalla á því að málið væri tiltölulega seint fram komið. Bæði ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon erum ungir menn og munum alveg þola smábið þangað til þetta ágæta frv. kemst til framkvæmda. Að öllu gamni slepptu hefði í sjálfu sér verið betra ef frv. væri þegar orðið að lögum, ef því væri að skipta. En nú hefur málið verið flutt og ég heyri að það er góður stuðningur hjá þingmanninum og vonandi öðrum á Alþingi Íslendinga við málið. Ég sé ekki annað en að við ættum að geta náð góðri samstöðu um það. Ég vil nota tækifærið enn og aftur og þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni kærlega fyrir stuðninginn.