Fjármálaeftirlitið

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 18:14:20 (4795)

2004-03-02 18:14:20# 130. lþ. 74.13 fundur 518. mál: #A Fjármálaeftirlitið# þál., Flm. JBjarn (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[18:14]

Flm. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um sjálfstæði og eflingu Fjármálaeftirlitsins. Flutningsmaður auk mín er hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem geri úttekt á starfsskilyrðum Fjármálaeftirlitsins og stöðu þess gagnvart ráðherra, ríkisstjórn og aðilum á fjármálamarkaði. Nefndin geri tillögur um hvernig sjálfstæði Fjármálaeftirlitsins verði best tryggt og starfsemi þess efld. Í því skyni skoði nefndin m.a. stjórnsýslulega stöðu þess og hvort vænlegt sé, sem liður í að styrkja óháða stöðu Fjármálaeftirlitsins, að það heyri undir Alþingi.``

Með tillgr. er síðan grg. sem ég ætla að leyfa mér að fara yfir.

Fjármálaeftirlitið er ríkisstofnun með sérstaka stjórn en heyrir undir viðskrh. Þessa þriggja manna stjórn skipar viðskrh., reyndar einn samkvæmt tilnefningu Seðlabanka Íslands, en að öðru leyti eru þeir skipaðir af hálfu viðskrh. Stofnunin gegnir lykilhlutverki á íslenskum fjármálamarkaði. Henni er ætlað afar mikilvægt opinbert eftirlitshlutverk og getur með aðgerðum sínum haft stefnumarkandi áhrif á allar athafnir og þróun á fjármálamarkaði. Því er mikilvægt að sjálfstæði stofnunarinnar sé tryggt þannig að hún geti starfað óháð handhöfum framkvæmdarvaldsins og hagsmunaaðilum. Að sama skapi er ljóst að búa verður þannig að Fjármálaeftirlitinu að það geti sinnt sínum mikilvægu verkefnum af myndarskap og afgreitt þau mál sem því berast eða það tekur upp að eigin frumkvæði fljótt og vel. Þess vegna gerir tillagan jafnframt ráð fyrir að nefndarstarfið miði að því að skoða hvernig efla megi starfsemi Fjármálaeftirlitsins.

Í ljósi mikilla og umdeildra hræringa á íslenskum fjármálamarkaði er brýnt að vinnu nefndarinnar sé hraðað sem kostur er.

Fjármálaeftirlitinu var komið á fót með lögum nr. 87/1998 og fer með þá starfsemi sem áður var á höndum bankaeftirlits Seðlabanka Íslands og Vátryggingaeftirlitsins. Þar var valin sú leið að setja stofnunina undir viðskiptaráðherra en það val verður að teljast hæpið, m.a. í ljósi þess að viðskiptaráðherra hefur verið einhver atkvæðamesti aðilinn með sölu banka á íslenskum fjármálamarkaði á síðustu árum. Það er breytilegt eftir löndum hvar ríkisstofnunum, sem fara með sambærilegt hlutverk og Fjármálaeftirlitið gerir, er skipað í stjórnsýslunni. Breyting á stjórnsýslulegri stöðu Fjármálaeftirlitsins, þannig að það verði fært undan viðskiptaráðherra, gæti styrkt stofnunina sem óháðan eftirlitsaðila og jafnframt eflt traust hennar og trú manna á íslenskum fjármálamarkaði. Sá möguleiki, sem gert er ráð fyrir að skoðaður verði samkvæmt tillögunni, að færa stofnunina undir Alþingi, gæti komið bæði Alþingi og Fjármálaeftirlitinu verulega til góða þar sem hvor aðilinn gæti styrkt hinn í eftirlitshlutverki þeirra.

Það að færa mikilvægar eftirlitsstofnanir undir Alþingi er ekki ný hugmynd. Þingmennirnir Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson fluttu tillögu til þingsályktunar á 127. löggjafarþingi þar sem lagt var til að kannaðir yrðu kostir þess að færa Þjóðhagsstofnun undir Alþingi. Þar var bent á að breytingar á stöðu Ríkisendurskoðunar, sem var færð undir yfirstjórn Alþingis frá framkvæmdarvaldinu, urðu til þess að styrkja þá stofnun mjög sem sjálfstæðan, óháðan og faglegan eftirlitsaðila. Allt fram til ársins 1987 heyrði Ríkisendurskoðun undir fjármálaráðherra.

Í tillögu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar var einnig bent á stöðu umboðsmanns Alþingis þó að ekki sé um efnislega sambærilega hluti að ræða. Þessum aðilum hefur reynst það vel að heyra undir Alþingi fremur en ráðherra og það hefur reynst þeim haldgóð trygging fyrir því að þeir njóti óskoraðs trausts og virðingar og að fagleg og hlutlæg vinnubrögð þeirra séu ekki dregin í efa vegna stöðu þeirra í stjórnsýslunni. Tillaga þessi gerir þó ekki ráð fyrir að aðeins sé kannaður sá kostur að færa Fjármálaeftirlitið undir Alþingi heldur skulu aðrir kostir skoðaðir og samanburður gerður á hvar sjálfstæði stofnunarinnar verður best tryggt.

Flutningsmenn leggja áherslu á að allar breytingar sem gerðar kunna að verða á starfsemi og stöðu Fjármálaeftirlitsins séu yfirvegaðar og vandlega undirbúnar, í góðu samstarfi við starfsmenn og samtök þeirra.

Virðulegi forseti. Verkefni Fjármálaeftirlitsins er gríðarlega víðtækt. Það hefur eftirlit og veitir starfsleyfi fjármálastofnana, það á að hafa eftirlit með því að starfsemi fjármálastofnana þjóni bæði almannahag og öryggis sé gætt í viðskiptaháttum, bæði innbyrðis og milli stofnana. Æ fleiri verkefnasvið eru orðin á sviði fjármála og heyra því með beinum eða óbeinum hætti undir Fjármálaeftirlitið. Þar má ekki aðeins tala um viðskiptabanka, banka og sparisjóði, heldur ýmsa verðbréfasjóði, tryggingafélög og alla þá aðila sem sýsla með fjármagn og hafa viðskipti með fjármagn með einum eða öðrum hætti.

Á síðustu árum er það ekki hvað síst hið opinbera sem hefur verið afar atkvæðamikill aðili á fjármálamarkaði. Einkavæðing og sala beggja ríkisbankanna, bæði Landsbankans og Búnaðarbankans sáluga, var ríkisaðgerð sem var gerð samkvæmt ákveðinni og afdráttarlausri stefnumörkun af hálfu ríkisstjórnarinnar og hæstv. viðskrh. fór með það mál fyrir hönd framkvæmdarvaldsins. Fjármálaeftirlitið, sem átti að vera eftirlitsaðilinn og annast eftirlit varðandi sölu bankanna, meta hæfi kaupenda, verð og verðskilmála, meta sem sagt alla hina ytri umgjörð viðskiptanna, heyrði beint undir sama ráðherra og var að framkvæma þennan stjórnsýslulega gjörning, þ.e. að selja viðskiptabankana. Fáar aðgerðir hafa verið afdrifaríkari og haft meiri áhrif á breytingar á fjármálalífinu, fjármálastarfseminni hér í landi en einmitt þessi aðgerð sem stýrt var af hálfu hæstv. viðskrh.

Fjármálaeftirlitið var því sett í mjög erfiða stöðu að mínu mati, að heyra undir sama ráðherra, vita hver hinn pólitíski vilji í málinu var og átti því nokkuð örðugt um vik að koma fram af fullum trúverðugleik. Enda þegar ég fletti blöðum frá þeim tíma þegar verið var að ganga frá og selja viðskiptabankana, ríkisbankana, og í miðju söluferlinu var skipt um kúrs og ákveðið að breyta útboðskröfum sem gerðar voru á bönkunum, stóð, eftir því sem mig minnir í blaði: ,,Salan hefur gengið fyrir sig en einungis er beðið eftir blessun Fjármálaeftirlitsins.`` Æ ofan í æ er því að mínu mati verið að lýsa vissu vantrausti á stöðu og starfsemi Fjármálaeftirlitsins, ekki hvað síst vegna þessara stjórnsýslulegu tengsla. Þó að ég treysti starfsmönnum þar á allan hátt til að vinna hlutlaust er mjög mikilvægt að Fjármálaeftirlitið geti starfað á sem hlutlausastan hátt og verið sem trúverðugast.

Við höfum heyrt það á tali hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. á undanförnum dögum og vikum að trúnaður og traust á milli samfélagsins og margra fjármálastofnana hafi farið þverrandi og óæskilegt hvert stefni. Hæstv. forsrh. hefur meira að segja gripið til persónulegra aðgerða gegn einstaka fjármálafyrirtækjum til að láta í ljós vanþóknun sína og alið þar með á tortryggni og vantrausti samfélagsins gagnvart fjármálastofnunum. Nýverið höfum við fylgst með því sem er að gerast á bankamarkaði þar sem aðilar eru að kaupa ráðandi hluti í fjármálafyrirtækjum, en samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki ber þeim að sækja um það, tilkynna það og gera grein fyrir því fyrir fram hjá Fjármálaeftirlitinu.

Við upplifum því að mínu viti á margan hátt að fjármálaheimurinn sýnir Fjármálaeftirlitinu allt of litla virðingu og allt of litla að því er virðist löghlýðni og elur þar með á tortryggni á þessum þjónustumarkaði. Það er afar slæmt því fátt er mikilvægara en að á fjármálamarkaði sé bæði trúnaður og traust á þeim aðilum sem þar starfa og þeim aðilum sem eiga líka að hafa eftirlit með að fylgt sé eðlilegum og réttum samkeppnisreglum og lögum og reglum. Auk þess tel ég að Fjármálaeftirlitið sé allt of veikt til að geta staðið undir þeirri ábyrgð og þeim kröfum sem til þess eru gerðar. Það var alveg ljóst að við einkavæðingu á bönkunum og sölu þeirra og þegar opnað var frjálst flæði fjármagns inn og út úr landinu hlaut það að gera gríðarlegar kröfur til Fjármálaeftirlitsins, því þó að við ætlum engum, hvorki í fjármálastarfseminni eða annarri starfsemi annað en að gera alla hluti af heiðarleika og bestu vitund, er það einmitt í meðferð með peninga sem þarf lítið til að ala á tortryggni. Einnig eru miklar freistingar að falla í þegar peningar eru annars vegar. Ég tel að Fjármálaeftirlitið hafi á engan hátt verið búið undir þær breytingar sem verið var að gera á fjármálamarkaðnum og þær kröfur sem hlutu að vera gerðar til eftirlitsstofnana hvað það varðaði.

Þess vegna, virðulegi forseti, legg ég áherslu á að till. til þál. sem við flytjum, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, um sjálfstæði og eflingu Fjármálaeftirlitsins fái mjög skjóta og örugga meðferð hér þannig að við þurfum ekki einnig á sviði löggjafans stöðugt að vera að koma með ,,eftiráaðgerðir``. Við upplifum það hjá Kauphöllinni, við upplifum það hjá Fjármálaeftirlitinu að aðilar þar eru stöðugt að koma með eftiráaðgerðir, aðgerðir vegna þess sem búið er. En okkar er að tryggja að þessu sé búið traust og öruggt umhverfi. Því er tillaga okkar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að kanna starfsskilyrði Fjármálaeftirlitsins og kanna hvort það ætti ekki frekar að heyra beint undir Alþingi en að lúta framkvæmdarvaldinu, sem er í pólitískum aðgerðum sínum þátttakandi á þessum fjármálamarkaði.