Fjármálaeftirlitið

Þriðjudaginn 02. mars 2004, kl. 18:37:49 (4797)

2004-03-02 18:37:49# 130. lþ. 74.13 fundur 518. mál: #A Fjármálaeftirlitið# þál., Flm. JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 130. lþ.

[18:37]

Flm. (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir gott og öflugt innlegg í umræðuna. Til að árétta hvað starfsemi Fjármálaeftirlitsins er víðtæk og hvernig við líkast til upplifum stöðu þess leyfi ég mér að vitna til laga um fjármálafyrirtæki en þar segir, með leyfi forseta, í 39. gr.:

,,Hyggist fjármálafyrirtæki kaupa eða fara með virkan eignarhlut í erlendu fjármálafyrirtæki skal það tilkynnt Fjármálaeftirlitinu fyrir fram. Fjármálaeftirlitið getur lagt bann við slíku ef það hefur réttmæta ástæðu til að ætla að upplýsingagjöf með starfseminni eða samstæðunni verði ekki nægilega traust og eftirlit með henni torveldað.``

Ég veit ekki að óreyndu, en í útrás fjármálafyrirtækja okkar á erlenda fjármálamarkaði, þar sem í einu vetfangi eru keyptir ráðandi hlutar í bönkum eða öðrum fjármálafyrirtækjum erlendis væri fróðlegt að vita hvort þessi grein væri alltaf uppfyllt, þ.e. hvort fjármálafyrirtækið sem hyggist kaupa eða fara með virtan eignarhlut í erlendu fjármálafyrirtæki tilkynni Fjármálaeftirlitinu það fyrir fram. Það sama gildir innan lands. Aðilar sem hyggjast eignast virkan eignarhlut í fjármálafyrirtæki skulu leita samþykkis Fjármálaeftirlitsins fyrir fram. Einhvern veginn hefur maður það á tilfinningunni að það sé ekki mjög hátíðlega farið með þessa lagagrein af hálfu þeirra sem þar er um að véla.

Með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild í fyrirtæki, ekki bara beina, virðulegi forseti, heldur líka óbeina, sem nemur 10% eða meira af eigin fé, stofnfé eða atkvæðisrétti. Þetta á líka við um atkvæðisréttinn eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórn viðkomandi fyrirtækis. Fjármálaeftirlitið á m.a. að hafa eftirlit með þessu og í þeim öru breytingum sem eru nú á eignarhaldi og eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum, hygg ég að Fjármálaeftirlitið hafi ærinn starfa bara við að taka á móti tilkynningum ef þær skyldu berast fyrir fram og með löggiltum fyrirvara eins og lög kveða á um.

Hvar sem borið er niður í þessu gríðarlega veigamikla verkefni sem Fjármálaeftirlitinu er ætlað vil ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að ég tel fjarri því að Fjármálaeftirlitinu hafi verið ætlað nægilegt sjálfstæði, nægilegur trúverðugleiki og nægilegt fjármagn til að axla þá miklu ábyrgð sem því er falið í þessum ört breytta fjármálaheimi. Tillaga okkar miðar að því að svo sé gert og að vonum fyrr.

Ég ítreka í lok míns máls hversu gríðarlega mikilvægt hlutverk eftirlitsaðilar og ráðgjafaaðilar eins og Fjármálaeftirlitið hefur, að halda trausti á fjármálamarkaðnum bæði innan fyrirtækja, milli fyrirtækja og milli fyrirtækja og almennings og milli fjármálafyrirtækja og þjónustuaðila. Hin ólíklegustu fyrirtæki eru að fara inn á hálfgerðan fjármálamarkað, t.d. Síminn sem nýverið fór með áhættufjármagn til Búlgaríu. Ekki datt mér í hug að Landssíminn okkar væri orðið eitthvert veðprangarafyrirtæki. Við munum eftir fréttunum þegar var farið með fjármagn og fjárfest í fyrirtækjum í Bandaríkjunum á sínum tíma fyrir nokkur hundruð millj. kr. sem allt fór á verri veg. Þá var Landssíminn gagnrýndur og forstjóri hans fyrir þau vinnubrögð. En nú er hann orðinn áfram í fjármálastarfsemi með fjárfestingum í Búlgaríu. Mér er spurn: Ætti þessi fjármálastarfsemi í landinu ekki að heyra undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins? Þetta er ekki lengur hin venjubundna starfsemi og svona má telja hvert fyrirtækið á fætur öðru sem er að fara út fyrir sína hefðbundnu starfsemi inn á fjármálamarkaðinn með beinum eða óbeinum hætti. Það hlýtur að kalla á öflugt fjármálaeftirlit og umfram allt hlutlaust og trúverðugt starf og er einmitt tillaga okkar að kannað verði hvort því sé ekki best fyrir komið beint undir Alþingi eða eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði í ræðu sinni, að kannað væri hvort það ætti að heyra undir forsrh. eins og Seðlabankinn. Sjálfur tel ég að það væri gríðarlegur styrkur fyrir Fjármálaeftirlitið ef það heyrði undir Alþingi og það færi með stjórn þess. Það væri gríðarleg trygging fyrir trúverðugleika starfsins í þessum ört breytta fjármálaheimi. Við tölum um græðgi og græðgisvæðingu, trúnað og vantrúnað o.s.frv., umræða sem ætti, ef staðan væri eðlileg og rétt, ekki að vera á þeim nótum í íslenskum fjármálaheimi.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það að ég óska eftir því að þáltill. um sjálfstæði og eflingu Fjármálaeftirlitsins í verki, störfum og möguleikum fái sem hraðasta meðferð í þinginu, góða og örugga meðferð. Að lokinni 1. umr. fer ég fram á að henni verði vísað til hv. efh.- og viðskn.