Skipun stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 13:45:09 (4808)

2004-03-03 13:45:09# 130. lþ. 75.91 fundur 375#B skipun stjórnar Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn# (aths. um störf þingsins), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Hér sýnist mér vera á ferðinni hreinn stjórnsýslulegur skrípaleikur og jafnframt stóralvarleg mál. Að mínu viti er hæpið hvort það standist stjórnsýslulegan rétt, að af hálfu ráðherra sé yfirmaður stofnunar skipaður í forstöðu fyrir sjálfstætt starfandi stjórn sem á að vera ráðgefandi fyrir viðkomandi stofnun og viðkomandi ráðherra.

Ég mundi gera að tillögu minni að hæstv. ráðherra endurskoðaði þessa vitleysu eða leitaði leiðsagnar t.d. Ríkisendurskoðunar og annarra slíkra um þá embættisfærslu áður en hún verður að veruleika.

Af hverju skipar hæstv. ráðherra bara ekki sjálfan sig? Það væri þó eitthvað sem allir ættu að treysta úr því að málið snýst um traust. Gæti hún þá ekki skipað hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson eða hæstv. iðnrh. Valgerði Sverrisdóttur úr því að málið snýst kannski meira um það? (Utanrrh.: Ég var ekki tilnefndur.) Nei, sennilega hefur ekki verið borið nægilegt traust til þín. En úr þessu má bæta.

Mér finnst illa gert af hæstv. ráðherra að ganga fram hjá samráðherrum sínum og treysta þeim ekki til þessa verks þannig að þetta sé allt í hendi. Hæstv. heilbrrh. Jón Kristjánsson, hinn góði Skagfirðingur, hefði verið enn þá betri.

Nei, virðulegi forseti. Þetta er stjórnsýslulegur skrípaleikur og alvörumál sem hæstv. ráðherra ætti t.d. að bera undir ríkisendurskoðanda áður en þetta gengi fram. Ég hvet ráðherra til að sýna þó ekki væri nema pínulitla visku hvað þetta varðar.