Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:07:00 (4814)

2004-03-03 14:07:00# 130. lþ. 75.95 fundur 379#B sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), VF
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[14:07]

Valdimar L. Friðriksson:

Hæstv. forseti. Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar eru hér til umræðu vegna þess að Landspítalinn -- háskólasjúkrahús hefur sagt upp samningi við ríkið um læknaþjónustu um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar eða réttara sagt vegna þess að ríkisvaldið hefur ekki endurnýjað þennan samning. Umræddur samningur tók gildi, eins og fram hefur komið, 1. júní 1998 og átti að endurskoða eigi síðar en 1. júní 1999, þ.e. fyrir tæpum fimm árum síðan.

Þetta er afskaplega þýðingarmikill samningur, þýðingarmikill hlekkur í öryggismálum okkar Íslendinga þar sem sex læknar sinna árlega yfir 130 útköllum með þyrlum Landhelgisgæslunnar, þar með talið 24 sinnum á ári þar sem sinnt er flókinni læknismeðferð um borð. Í sjúkraflugi getur þyrlan verið allt að tvær klukkustundir og því getur læknismeðferð um borð skipt sköpum varðandi líf eða dauða hins slasaða.

Virðulegi forseti. Enn einu sinni eru öryggis- og heilbrigðismál í uppnámi. Uppsögn samningsins er að hluta til ein af sparnaðaraðgerðum Landspítalans. Greiðsla fyrir samninginn hefur ekkert hækkað síðan 1. júní 1998 og spítalinn, sem er jafnframt í fjársvelti, hefur ekki efni á að greiða mismuninn á kostnaðinum í dag. Þetta eru engin ný sannindi. En hvers vegna í ósköpunum þarf ávallt að grípa til svo róttækra aðgerða til að fá ríkisstjórnina að samningaborðinu?

Virðulegi forseti. Í þessu máli sem mörgum öðrum virðist sem það sé ómögulegt að ná ráðherrum að samningaborði án þess að öllu sé stefnt áður í óefni. Ráðherrar eiga að hafa metnað til að leysa sín verkefni áður en þau verða að vandamáli, hvað þá lífshættulegu vandamáli eins og hér stefnir í.