Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:09:12 (4815)

2004-03-03 14:09:12# 130. lþ. 75.95 fundur 379#B sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), BJJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[14:09]

Birkir J. Jónsson:

Hæstv. forseti. Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar eru gríðarlegt öryggismál fyrir íslenska þjóð. Sjómenn reiða sig á það öryggisnet sem sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar eru. Sjómenn vinna áhættusamt starf í þágu íslensks sjávarútvegs sem er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, atvinnugrein sem hefur flutt íslenska þjóð úr sárri örbirgð til allsnægta. Því er mikilvægt og sjálfsagt að sjómannastéttinni séu búin þau skilyrði að öryggið sé eins og best verður á kosið.

Því miður hefur Landspítali -- háskólasjúkrahús neyðst til þess að segja upp samningi við dómsmrn. m.a. um mönnun á læknum í sjúkraflutningum Gæslunnar. Samningurinn var gerður milli þessara aðila árið 1998 en síðan þá hefur uppfærsla á honum ekki verið í neinum tengslum við kjaraþróun íslensku læknastéttarinnar. Því þarf nýr samningur að taka mið af því og ég treysti hæstv. dómsmrh. til að beita sér við úrlausn þessa máls.

Við skulum þó hafa í huga að málsaðilar hafa enn nægan tíma til að komast að nýju samkomulagi vegna þessarar mikilvægu þjónustu þar sem uppsagnarfrestur samningsins gildir fram til mánaðamóta apríl/maí. Mikilvægt er að halda því til haga að sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar verða með lækni innanborðs fram að þeim tímamótum. Því er mjög mikilvægt að Landhelgisgæslan og dómsmrn. semji sín á milli fyrir þann tíma. Annað er óásættanlegt. Við verðum að búa vel að Landhelgisgæslunni. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir okkur að læknar séu um borð í sjúkraflutningum Gæslunnar. Annað er ólíðandi gagnvart íslensku sjómannastéttinni og íslenskri þjóð.