Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:15:31 (4818)

2004-03-03 14:15:31# 130. lþ. 75.95 fundur 379#B sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), JGunn
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[14:15]

Jón Gunnarsson:

Frú forseti. Landhelgisgæslan er í fjársvelti og hefur verið lengi. Hv. málshefjandi fór yfir þá stöðu sem Gæslan er í varðandi sjúkra- og björgunarflug og er í raun með ólíkindum að ekki skuli hafa verið sest niður fyrir löngu til að skilgreina og leysa þann vanda sem við blasir.

Hæstv. dómsmrh. svaraði hér litlu og var svo sem ekki við miklu að búast þegar horft er til þess algjöra áhugaleysis sem virðist vera á málefnum Landhelgisgæslunnar þar á bæ. Björgunar- og sjúkraflug með öflugum þyrlum og vel þjálfaðri og samhentri áhöfn er algjör nauðsyn hér á landi og hefur oft og mörgum sinnum sannað gildi sitt þegar vá hefur borið að dyrum. Það er með ólíkindum að stjórnvöld skuli nú láta sér detta í hug að veikja þann hóp sem sinnir þessari þjónustu með uppsögn þyrlulæknanna og draga þannig úr öryggi sem þessi þjónusta hefur veitt.

Þyrlur varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli hafa oft gripið inn í þegar þörf hefur verið á og íslensk stjórnvöld óskað liðsinnis vegna ónógra innlendra úrræða. Við þekkjum öll þá umræðu sem í gangi hefur verið um verulegan samdrátt í starfsemi varnarliðsins og því hlýtur sú spurning að leita á hugann hvort hæstv. dómsmrh. hafi skoðað hver sé framtíð þyrlusveitarinnar á Keflavíkurflugvelli og hvort ekki sé ástæða til að stórefla þyrluútgerð Landhelgisgæslunnar í stað þess að veikja hana eins og nú er verið að gera.

Forgangsröðun stjórnvalda hefur oft verið hér til umræðu og oft hefur manni blöskrað hver hún er. En, frú forseti, að raða vopnaðri lögreglusveit og sprengjuleit í Írak framar í forgangsröð en þjónustu við fórnarlömb slysa og hamfara er óskiljanlegt öllu venjulegu fólki. Hér hefur hæstv. ráðherra toppað sjálfan sig í vitleysunni og ekki laust við að maður sé farinn að hlakka til að sjá nýjan aðila taka sæti í stóli dómsmrh.