Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:17:48 (4819)

2004-03-03 14:17:48# 130. lþ. 75.95 fundur 379#B sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), KHG
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[14:17]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Á þessu máli eru margar hliðar eins og fram kom í framsöguræðu hv. málshefjanda og málið er ekki einfalt og verður ekki leyst í einni sjónhendingu.

Ég vil aðeins staldra við þann þátt málsins sem lýtur að öryggismálum landsmanna, bæði sjómanna og þeirra íbúa landsins sem búa fjarri Landspítalanum -- háskólasjúkrahúsi. Þar leikur þyrlubjörgunarsveitin lykilhlutverk í því öryggisneti sem við höfum riðið til þess að treysta stöðu okkar í þjóðfélaginu. Nú liggur fyrir að það mál er í uppnámi eftir að Landspítalinn sagði upp samningnum. Við getum ekki búið við það að einhver óvissa sé um framtíð þessarar þjónustu, hvorki sjómenn þessa lands eða íbúar dreifbýlisins sem búa fjarri höfuðborgarsvæðinu. Það verður að vera öryggi í þessu efni.

Það er alveg ljóst af atvikum málsins að fjármagn vantar til Landhelgisgæslunnar til að geta veitt þá þjónustu sem við ætlum Landhelgisgæslunni að veita. Ég skora á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að útvega það fé til Landhelgisgæslunnar þannig að við þurfum ekki að búa við óvissu um nokkurra vikna hríð til viðbótar við það sem þegar er liðið af þessu ári.

Hæstv. dómsmrh. hefur þegar sýnt að hann getur beitt sér og verið fundvís á fé þegar öryggismál eru annars vegar og ég trúi ekki öðru en honum reynist það létt verk að finna nauðsynlegt fjármagn til að tryggja áframhaldandi rekstur Flugbjörgunarsveitar Landhelgisgæslunnar. Það er alveg jafnmikilvægt öryggismál og að fjölga í sérsveit lögreglunnar.