Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:19:50 (4820)

2004-03-03 14:19:50# 130. lþ. 75.95 fundur 379#B sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), JBjarn
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[14:19]

Jón Bjarnason:

Frú forseti. Þjóðin hefur verið stolt af viðbragðsflýti, færni og hugrekki starfsmanna Landhelgisgæslunnar þegar neyð hefur kallað og oft hafa þeir mátt vinna verk sín við afar erfið björgunarskilyrði. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar setja sjálfa sig í lífsháska til að bjarga mannslífum hvort sem er við slys á hafi úti eða vítt um byggðir og óbyggðir landsins. Okkur hefur þótt afar mikilvægt að þyrlur okkar, þyrlur Landhelgisgæslunnar væru búnar nýjustu tækjum og búnaði til björgunar og verndunar mannslífa.

Því kemur það við þjóðarsálina og snertir, held ég, streng í hjarta hvers Íslendings að heyra tilkynnt í fréttum að í sparnaðarskyni hafi verið sagt upp samningum við lækna sem sinnt hafa læknisþjónustu um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar og að sá samningur renni út, verði ekki að gert, 1. maí nk.

Uppsögn þyrlusamningsins er ein af sparnaðaraðgerðum Landspítalans eins og fram kemur í fréttum í sjónvarpi 13. febrúar sl. Spítalinn segir samning við ríkið um þjónustu of lágan og spítalinn sætti sig ekki við að þurfa að greiða mismuninn. Þessi samningur var gerður 1998 og hefur staðið óbreyttur í krónutölu síðan. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hefur oft verið óskað eftir endurskoðun á samningnum en því hafi ríkið ekki sinnt. Ofan á þetta allt hefur stöðugt verið hert að fjárhag Landhelgisgæslunnar svo ekki getur hún tekið á sig þennan aukakostnað.

Frú forseti. Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar er allsherjarbjörgunarsveit og þjóðin ætlar henni aukið hlutverk frekar en að skerða það. Við eigum ekki að láta standa upp á okkur þá skömm að vafi leiki á því hvort læknar fylgi með í þyrlum Landhelgisgæslunnar í þjónustuflugi. Ég skora því á stjórnvöld að ganga nú þegar til samninga sem tryggi að læknar séu ávallt um borð í þyrlum Landhelgisgæslunnar í sjúkra- og björgunarflugi hér á landi.