Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:22:16 (4821)

2004-03-03 14:22:16# 130. lþ. 75.95 fundur 379#B sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), GHall
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[14:22]

Guðmundur Hallvarðsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það er vissulega rétt að þetta er mál sem þarf skoðunar við. Hæstv. dómsmrh. kom inn á mikilvægi flugflota Landhelgisgæslunnar og öryggisþáttarins. Ég tel að staðan sé ekki sú eins og einn hv. þm. kom inn á, að málið sé í uppnámi, að það sé of í lagt. Hins vegar hafa þingmenn komið inn á það að þetta sé fyrst og fremst öryggistæki sem snýr að sjómönnum. Ég tel að rétt sé að horfa á starfsemi flugflota Landhelgisgæslunnar og er hér með yfirlit yfir flugtíma flugflota Landhelgisgæslunnar þar sem TF Líf og Sif gegna meginhlutverki í slysa- og sjúkraflugi t.d. á sjó. Ef litið er á flugstundir flugflota Landhelgisgæslunnar greinast þær þannig að vegna íslenskra skipa er flogið í 79 klst. á 32 mánaða tímabili, vegna erlendra skipa er flogið í 61 klst. En svo vek ég athygli á að vegna slysa- og sjúkraflugs á landi vegna umferðarslysa er flogið í 89 klst. Vegna annarra slysa er sjúkraflug í 198 klst.

Menn sjá því að sá þáttur sem snýr að sjó er allóverulegur í þessum samanburði en engu að síður er auðvitað mikilvægt að sjómenn geti stólað á þessa þjónustu. En þá hlýtur að vakna sú spurning varðandi þennan samning hvort einhverjir fleiri aðilar ættu ekki að koma að greiðsluþætti rekstrarkostnaðar þyrluflota Landhelgisgæslunnar. Ég bendi þá sérstaklega á margar flugstundir vegna umferðarslysa sem er hvorki meira né minna en tæpar 90 klst. en varðandi íslensk skip er það 79 klst.

Hér er því um verulegt verkefni að ræða að fara ofan í og full ástæða til, en ég treysti hæstv. dómsmrh. til þess að leysa þetta mál farsællega.