Sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:24:37 (4822)

2004-03-03 14:24:37# 130. lþ. 75.95 fundur 379#B sjúkraflutningar Landhelgisgæslunnar# (umræður utan dagskrár), Flm. GAK
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 130. lþ.

[14:24]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þingmönnum fyrir þátttöku í þessari umræðu og ráðherra fyrir svör hans. Ég verð hins vegar að segja að mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara því nákvæmlega eða nógu vel hvaða atbeina hann hyggst hafa til þess að efla og styrkja neyðarþjónustuna og sjá til þess að læknarnir verði áfram í áhöfn þyrlunnar. Hann sagði að verið væri að vinna að málinu og vonandi tækist um það samkomulag og það væri markmiðið. Ég fagna því auðvitað að menn hafi ákveðið að setja sér það markmið að ljúka þessum samningi áður en hann fellur endanlega úr gildi.

Ég vil hins vegar víkja að því sem kom fram í svari hæstv. dómsmrh. áðan varðandi ferðir og kostnað og hvort taka eigi gjald.

Ég spyr í því sambandi: Hver greiðir kostnaðinn við köfun í Neskaupstað við rannsókn þess máls? Er það Landhelgisgæslan? Kemur sá kostnaður frá ríkislögreglustjóra? Þannig má spyrja í fjöldamörgum verkum sem Landhelgisgæslunni eru falin. Hún fær ekki endurgreiddan þann kostnað sem hún leggur fram. Ætlast er til þess að Landhelgisgæslan sé ávallt reiðubúin og þyrluáhöfnin til þess að fara í hin ýmsu flug út á land, grípa þar inn í verkefni sem e.t.v. var búið að semja um við ákveðin flugfélög að sinna en hefur ekki tekist. Hver greiðir þann kostnað? Ekki koma greiðslur fyrir það frá samningsaðilum um sjúkraflug úti á landi.

Ég er því að draga það fram í þessari umræðu að staða Landhelgisgæslunnar hvað það varðar að fá endurgreiddan kostnað sem hún leggur fram við hin ýmsu verkefni er ekki skilgreind og það er þörf á því að á því sé tekið.

Hitt fer ekki á milli mála að landsmenn telja þyrluna og þyrluáhöfnina einn mesta öryggisstuðul sem þeir hafa fengið til þess að tryggja öryggi þeirra í neyðartilvikum.