Svar við fyrirspurn

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:36:24 (4828)

2004-03-03 14:36:24# 130. lþ. 76.91 fundur 380#B svar við fyrirspurn# (aths. um störf þingsins), BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[14:36]

Björgvin G. Sigurðsson:

Frú forseti. Hæstv. ráðherra skautaði létt fram hjá þeirri fyrirspurn minni af hverju fyrirspurn mín um skólagjöld og fjöldatakmarkanir við Háskóla Íslands hefur ekki verið tekin á dagskrá þingsins eins og þingsköp kveða skýrt á um að gera skuli. Það breytir engu um það þó að við höfum rætt hér fyrr í vetur um þann bráða vanda sem uppi er í Háskóla Íslands þar sem skólinn hefur ekki fengið þau fjárframlög sem honum ber vegna nemendafjölda skólans. Rétt er hjá ráðherra að ekkert hefur gerst í því og ekkert hefur verið gert til að bæta úr þessum vanda háskólans, hann er í sömu súpunni og fyrrum. Það breytir því ekki að þingsköp eru hér þverbrotin. Fyrirspurnin er orðin meira en 100 daga gömul og augljóst mál að henni ber að svara, eins og þingsköp kveða á um, innan átta daga.

Síðan hefur ýmislegt gerst sem ýtir undir það, ef ráðherra vill fara í efnislega umræðu um það hvort beri að ræða skólagjöld og fjöldatakmarkanir, og m.a. það að ráðherra lýsti því yfir í viðtali á Stöð 2 fimmtudaginn 5. febrúar, með leyfi forseta, að Háskóli Íslands væri ríkisstofnun og eins og aðrar ríkisstofnanir eiga að gera verði hann að halda sig innan þess ramma sem fjárlögin eru.

Með þeim orðum sínum er hæstv. menntmrh. að lýsa því yfir að taka beri upp fjöldatakmarkanir við Háskóla Íslands sem takmarkast við þann nemendafjölda sem getið er um í kennslusamningnum milli háskólans og ríkisvaldsins. Umfram það megi háskólinn ekki taka nemendur inn í skólann og þar með er verið að gjörbreyta því sem áður var, að Háskóli Íslands væri þjóðskóli sem bæri að taka við þeim nemendum í skóla sem sæktu um vist í hann og hefðu lokið tilskildu námi. Það er alveg kristaltært að svoleiðis hefur það verið en með þessari yfirlýsingu sinni er ráðherra að segja annað. Þess vegna er brýnt að ræða það mál hér á Alþingi hvort sú algjöra stefnubreyting hafi átt sér stað í málefnum Háskóla Íslands að hann sé ekki lengur þjóðskóli, opinn öllum, heldur eigi hann að taka upp fjöldatakmarkanir og há skólagjöld á grunnnám. Því hefur Samf. algjörlega hafnað sem leið til að mæta fjárþörf Háskóla Íslands.