Tilkynningarskylda og afmörkun siglingaleiða

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:42:49 (4832)

2004-03-03 14:42:49# 130. lþ. 76.1 fundur 356. mál: #A tilkynningarskylda og afmörkun siglingaleiða# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GHall
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[14:42]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson):

Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að leggja hér fram fyrirspurn til hæstv. samgrh. Tilefni hennar er að 16. maí 1997 var samþykkt á Alþingi þáltill. sem ég var 1. flm. að, ásamt fleiri hv. þm.

Þál. hljóðaði svo:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni, í samráði við hagsmunaaðila, að móta skýrar reglur um tilkynningarskyldu og afmörkun siglingaleiða olíuskipa og annarra skipa sem sigla með hættulegan varning inn í íslenska efnahagslögsögu sem m.a. innihaldi heimildir til tafarlausrar stöðvunar ef vart verður mengunar. Reglurnar nái einnig til olíuskipa í siglingum milli hafna hér á landi.

Jafnframt verði mótaðar reglur um hvaða ráðuneyti og stjórnvöld fari með forræði um allar aðgerðir sem grípa þarf til ef mengunarslys verða á sjó eða við strendur landsins.``

Nokkuð hefur breyst í umhverfinu síðan þessi þáltill. var samþykkt, virðulegi forseti, og má þar t.d. nefna að síðasta skipi sem var undir íslenskum fána og heitir Keilir var flaggað út nú nýverið undir fána Færeyja. Áfram heldur þetta skip samt sem áður að sigla hér með ströndum fram og er í bígerð þessarar útgerðar, sem er mjög illa stödd fjárhagslega og sameign olíufélaganna, að ráða rússneska áhöfn og væntanlega þá rússneskan skipstjóra sem þekkir hvorki haus né hala á erfiðum aðstæðum við strandsiglingar við Ísland.

Að mér setti óhug fyrir fáeinum dögum þegar skip í eigu íslenskrar útgerðar með rússneskri áhöfn rak stjórnlaust upp í fjöru á Grundartanga, sem betur fer í blíðviðri. Það var lán í óláni að skipið lenti milli tveggja skerja og á eina auða sandblettinum sem þarna finnst.

Nú er það líka svo að erlend stjórnvöld, ég bendi t.d. á Kanada, gera þær kröfur að skip sem dæla út sjóballest geri það löngu áður en komið er inn í efnahagslögsöguna. Jafnframt er þeim skylt að færa nákvæmlega til bókunar á hvaða lengd og breidd þetta var gert o.s.frv. Nú er orðið mjög algengt að skip sigla heimshafanna á milli með sjóballest og engar kröfur höfum við Íslendingar gert um það hvar og með hvaða hætti slík vinna fari fram, þ.e. þegar sjóballest er dælt úr tönkum skipa. Nauðsynlegt er auðvitað að taka á þess máli. Ég nefni sem dæmi mikla undrun sem sætti meðal Reykvíkinga fyrir einum 15 árum þegar mikil kýlapest geisaði í laxfiski í Elliðaánum. Fiskurinn þarf auðvitað að synda um Sundahöfn þar sem mörg erlend skip liggja og eflaust hafa þau dælt ballest úr tönkum sem hefur sjálfsagt valdið þessum skaða vegna mengunar í laxfiski hér.

Virðulegi forseti. Því legg ég fram þessa fyrirspurn til hæstv. samgrh.