Öryggi sjúkraflugvallar á Djúpavogi

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 14:57:07 (4837)

2004-03-03 14:57:07# 130. lþ. 76.2 fundur 616. mál: #A öryggi sjúkraflugvallar á Djúpavogi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Frú forseti. Ástæða fyrirspurnar minnar er bókun sveitarstjórnar Djúpavogshrepps frá 12. febrúar á þessu ári sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn Djúpavogshrepps felur sveitarstjóra að beina því til fjárveitingavaldsins og Flugmálastjórnar að tryggt verði fjármagn til að ryðja snjó af sjúkraflugvellinum við Djúpavog í þau örfáu skipti á ári hverju, sem þörf er á því að hreinsa af honum snjó eða driftir. Hið sama gildir um völtun o.fl.``

Jafnframt er minnt á ástand vegar að flugvellinum sem er langt frá því að vera viðunandi að mati heimamanna. Undirrituðum hefur skilist að hvorki Vegagerðin né Flugmálastjórn telji viðhald vegarins vera í sínum verkahring og því virðist að óbreyttu ekki í önnur hús að venda en að ganga í sjóði sveitarfélagsins til að tryggja hnökralausan flutning um hann þar sem ástand hans er langt frá því að vera ásættanlegt.

Þetta var ástæða fyrirspurnar minnar til hæstv. samgrh. en hún er svohljóðandi:

1. Hver er áætlaður árlegur kostnaður við snjóruðning á sjúkraflugvellinum á Djúpavogi?

2. Hver er stefna ráðherra hvað varðar notkun sjúkraflugvallarins?

3. Mun ráðherra beita sér fyrir því að tryggt verði fjármagn til snjóruðnings á flugvellinum og til viðhalds vegar að honum?

Frú forseti. Þessi bókun sveitarstjórnar Djúpavogshrepps ýtti við mér hvað varðar mikilvægi þess að flokkun flugvalla sé ljós og skilgreind og að þjónusta sé í samræmi við fyrrgreinda flokkun. Það er eðlilegt að sveitarstjórnir líti til skilgreininga á flokkun á flugvöllum í flugmálaáætlun, en flugvöllurinn í Djúpavogi flokkast undir flokk 6 og þegar við lesum skilgreiningu á flokki 6 eru í þeim flokki sjúkraflugvellir og aðrir lendingarstaðir sem þjóna minnstu flugvélunum. Flugvellirnir eru án flugvallarstjórnar og ekki mannaðir. Það er eðlilegt að sveitarstjórnir líti til fyllsta öryggis þegna sinna og flokki flugvellina samkvæmt þessari skilgreiningu en hitt er annað mál að í leiðbeiningum sem flugmenn hafa er engin slík ákveðin skilgreining á sjúkraflugvöllum, öryggisflugvellum eða neyðarflugveli þannig að samkvæmt þeirra leiðbeiningum hafa þeir ekki skilgreiningu sjúkraflugvallar t.d. á flugvellinum á Djúpavogi.