Öryggi sjúkraflugvallar á Djúpavogi

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:05:11 (4841)

2004-03-03 15:05:11# 130. lþ. 76.2 fundur 616. mál: #A öryggi sjúkraflugvallar á Djúpavogi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra svörin og eins að það skuli vera nefnd að störfum sem er að fara yfir flokkun á flugvöllum. Ég tel mjög brýnt að horft sé út frá öryggissjónarmiðum en ekki eingöngu rekstrarlegum sjónarmiðum á þá flugvelli sem eru fyrir utan aðalflugvellina og þar sem ekki eru lengur reglubundnar lendingar flugvéla og það sé í raun og veru hluti af heilbrigðisþjónustunni hvaða flugvöllum á að þjóna og hvernig viðhalda eigi þeim sem ákveðið er að hafa í rekstri.

Það eru fjölmargir flugvellir sem flokkast í 6. flokk og aðstæður eru mismunandi. Það er missnjóþungt á þessum svæðum og svæði eru líka mjög miseinangruð og þá vil ég benda á Borgarfjörð eystri sem þyrfti að horfa sérstaklega til. En þó að Djúpavogshreppur óski eftir því að rutt sé jafnharðan og snjór fellur er þetta sem betur fer snjólétt svæði og 300 þús. kr. sem áætlaður kostnaður til að fara í snjómokstur er ekki há upphæð, en það er mikilvægt fyrir sveitarstjórnina svo og aðrar að ef fara á þá leið að moka þegar þörf krefur, en ekki að halda flugvöllunum stöðugt opnum, að þá sé alveg tryggt að þær fái þau útgjöld greidd sem falla á sveitarfélög vegna snjómoksturs vegna sjúkraflugs. Veturnir eru mjög missnjóþungir og það verður að vera alveg ljóst að sveitarfélögin fái greidd þann útlagða kostnað sem verður vegna snjómoksturs.