Öryggi sjúkraflugvallar á Djúpavogi

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:07:22 (4842)

2004-03-03 15:07:22# 130. lþ. 76.2 fundur 616. mál: #A öryggi sjúkraflugvallar á Djúpavogi# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:07]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Virðulegi forseti. Það hefur orðið mikil þróun í samgöngukerfi okkar Íslendinga. Það sést best á því hvernig uppbygging flugvalla hefur verið í landinu. Fyrir 20 árum var lögð mikil áhersla á að byggja upp flugvelli sem víðast en með bættum vegasamgöngum hefur orðið mikil breyting hvað það varðar.

Engu að síður er það svo að í okkar samgönguáætlun er gert ráð fyrir tilteknu neti flugvalla sem m.a. eru sjúkraflugvellirnir. Það er afar mikilvægt að skilgreina hlutverk þeirra og þjónustu þeirra mjög skýrt og það höfum við gert í flugmálaáætlunarþætti samgönguáætlunarinnar þannig að áfram þarf að halda því til haga í nýrri áætlun.

Aðeins vegna þess sem hér kom fram, þá er, held ég, eignarhald hvað þennan flugvöll varðar nokkuð skýrt. Hins vegar er það svo að einstaklingar í landinu hafa brugðið á það ráð að ryðja brautir og búa til flugvelli sem eru á eignarlöndum og þá á ábyrgð nokkurra einstaklinga en þetta þarf að sjálfsögðu að skilgreina eins og annað. Ég vil hins vegar minna á að með jarðgöngum um Almannaskarð mun að sjálfsögðu verða mikil breyting á samgöngukerfinu á þessu svæði, á Djúpavogi, þar sem flugvöllurinn á Höfn í Hornafirði er mjög vel uppbyggður og þar er þjónustan góð, en að öðru leyti þarf auðvitað að líta til þeirrar þjónustu sem þyrluflotinn veitir og á það þarf að leggja sérstaka áherslu.