Bundið slitlag á þjóðvegi nr. 1

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:09:52 (4843)

2004-03-03 15:09:52# 130. lþ. 76.3 fundur 627. mál: #A bundið slitlag á þjóðvegi nr. 1# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GÞÞ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:09]

Fyrirspyrjandi (Guðlaugur Þór Þórðarson):

Virðulegi forseti. Ég vil spyrja hæstv. samgrh. um þjóðveg 1 og hvenær klárað verður að setja bundið slitlag á þann veg. Eins og við þekkjum var það 14. júlí árið 1974, eða fyrir tæplega 30 árum, sem þessi 1.400 km leið, hringvegurinn, var formlega opnuð.

Það hefur náttúrlega gengið á ýmsu í samgöngumálum síðan. Á síðustu missirum og áratug, held ég að megi fullyrða, hefur ekki verið þróun í samgöngumálum heldur þvert á móti verið hrein og klár bylting í tíð núv. hæstv. samgrh. og fyrirrennara hans, hv. þm. og virðulegs forseta þingsins, Halldórs Blöndals.

Hins vegar eru mörg verkefni enn þá til staðar og verða áfram og ég ligg ekkert á því að sjálfur sé ég fyrir mér að stærstu verkefnin fram undan og mér hugleiknust eru Sundabraut og mislæg gatnamót á Kringlumýrarbraut og Miklubraut en svo sannarlega eru önnur brýn verkefni úti um allt land.

Þegar keyrt er eftir þjóðvegi 1 finnst manni skjóta svolítið skökku við að enn eru nokkrir spottar eftir. Maður vildi gjarnan sjá að þessu yrði lokið. Ég held að allir vilji sjá það á þessum helstu leiðum og geri þá lágmarkskröfu að hafa bundið slitlag. Einnig er það hreint og klárt svo að komnar eru margar kynslóðir á Íslandi sem eru óvanar því að keyra á möl og því fylgir mikil hætta að keyra á möl fyrir fólk sem þekkir ekki til þess. Sama á við um erlenda ferðamenn sem hafa ekki reynslu af slíku.

Það er auðvitað fleira sem þarf að hyggja að þegar verið er að byggja þjóðvegi og hanna vegi eins og í þessu tilfelli þjóðveg 1. Við þurfum umfram allt að hanna vegamannvirki með það fyrir augum að slysahætta verði sem allra minnst. Ég þarf ekki að upplýsa þingheim um hvers vegna það er mikilvægt og við skulum vona að við sjáum sem allra fæst slys á þjóðvegum í nánustu og fjærstu framtíð.

Spurningin er einfaldlega sú hvort við sjáum eitthvað fram á það að hringvegurinn, þjóðvegur 1, verði allur lagður bundnu slitlagi. Nú eru um 30 ár síðan þessi vegur var opnaður og mér þætti gaman að fá að vita og mjög æskilegt að fá að sjá að þessi góði hringvegur verði allur lagður bundnu slitlagi.