Bundið slitlag á þjóðvegi nr. 1

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:12:58 (4844)

2004-03-03 15:12:58# 130. lþ. 76.3 fundur 627. mál: #A bundið slitlag á þjóðvegi nr. 1# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:12]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. 6. þm. Reykv. n. fyrir þessa fyrirspurn. Hún gefur okkur kjörið tækifæri til þess að átta okkur á hver staða vegakerfisins er, en í þál. um samgöngu\-áætlun fyrir árin 2003--2014 er gert ráð fyrir fjárveitingum til framkvæmda við þá kafla á hringveginum sem enn eru með malarslitlagi á öllum tímabilum áætlunarinnar.

Á fyrsta tímabilinu, þ.e. 2003--2006, eru 1.930 millj. til ráðstöfunar og þar er með talið viðbótarfjármagnið sem sett var sérstaklega til þess að efla atvinnutækifæri og hringvegurinn fær hluta af því. Á öðru tímabili, 2007--2010, eru 590 millj. kr. og á þriðja tímabilinu, 2011--2014, eru 400 millj. kr. Í þessum áætlunum var gert ráð fyrir að lokið yrði lögn bundins slitlags á alla vegarkafla á hringveginum nema á veginum um Breiðdalsheiði. Raunar miða áætlanir að því að 2008--2009 verði lokið við að leggja bundið slitlag á alla vegarkaflana nema veginn úr Breiðdal yfir í Skriðdal. En nefna má að með tilkomu jarðganga milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar á næsta ári verður samfellt bundið slitlag úr Berufirði til Egilsstaða ef farið er um jarðgöngin og firðina og sú leið verður aðeins 9 km lengri en ef hringvegurinn um Breiðdal og Skriðdal er farinn. Við endurskoðun samgönguáætlunar verður tekin afstaða til þess hvort ekki sé eðlilegt að hringvegurinn liggi um jarðgöngin milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar í stað þess að vera um Breiðdal og Skriðdal eins og nú er.

Þá ber að geta þess að endurbætur vega og tvöföldun einbreiðra brúa er mjög aðkallandi á nokkrum stöðum á hringveginum. Gert er ráð fyrir að bjóða út á þessu ári áfanga við endurbyggingu hringvegar um Stafholtstungur og Norðurárdal í Borgarfirði. Einnig er gert ráð fyrir útboði á þessu ári vegna endurbyggingar vegar um Norðurárdal í Skagafirði þar sem eru fjórar einbreiðar brýr á hringveginum. Það verk hefur tafist vegna skipulagsástæðna, en skipulagið var kært til úrskurðar umhvrh. sem hefur kveðið upp sinn úrskurð og nú er ekkert til fyrirstöðu að ljúka hönnun þess vegar. Þar er um að ræða endurbyggingu vegar en þar er slitlag sem er ófullkomið og þess vegna nauðsynlegt að endurbyggja það. Eftir sem áður eru 70 einbreiðar brýr á hringveginum þannig að það er af mörgu að taka í þessu öllu.

Af þessari lýsingu má öllum vera ljóst að enn er mikið verk óunnið við hringveginn og því nauðsynlegt að tryggja sem mest fjármagn til þessarar vegagerðar. Við endurskoðun á samgönguáætluninni í haust verður að sjálfsögðu að leggja ríka áherslu á það að okkur megi takast á næsta fjögurra ára tímabili að ljúka endurbyggingu hringvegarins þó að ekki sé víst að okkur takist að ljúka því að endurbyggja allar einbreiðar brýr því þar eru stór verk á ferðinni sem kosta mjög mikla fjármuni, en það mun ekki standa á samgrn. eða Vegagerðinni að leggja í það verk. Við eigum að stefna að því að ljúka því að bundið slitlag verði komið á allan hringveginn á þessu fjögurra ára tímabili.