Afnotagjöld Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:29:08 (4853)

2004-03-03 15:29:08# 130. lþ. 76.5 fundur 581. mál: #A afnotagjöld Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:29]

Fyrirspyrjandi (Ágúst Ólafur Ágústsson):

Herra forseti. Fyrirspurn mín til hæstv. menntmrh. er hvort ráðherra muni beita sér fyrir því að innheimtu afnotagjalda Ríkisútvarpsins verði hætt. Ef svo er, hvenær verður það gert og hvernig verður tekjutapi Ríkisútvarpsins mætt?

Þetta er mikilvægt mál vegna þess að það snertir rekstrargrundvöll einnar áhrifamestu ríkisstofnunar landsins. Það eru margs konar gallar við afnotagjöld sem tekjuöflun. Innheimtuaðferðin er dýr. Nefnt hefur verið að það kosti um 80 millj. kr. árlega að reka innheimtudeild Ríkisútvarpsins en til samanburðar kostar skattstofan á Norðurlandi eystra svipaða upphæð. Innlendir kvikmyndagerðarmenn kvarta sáran yfir því að stofnunin kaupi ekki meira efni af þeim á þessu ári, en samanlögð kaup stofnunarinnar af sjálfstæðum framleiðendum eru ívið minni en sem nemur rekstrarkostnaði innheimtudeildarinnar.

Afnotagjöld eru líka óskilvirk innheimtuaðferð. Talið er að allt að 9% gjaldenda sleppi við að greiða sín afnotagjöld. Upphæð afnotagjaldsins er einnig einungis undir ákvörðunarvaldi ráðherrans sett, sem getur haft margs konar galla. Afnotagjöld eru óvinsæl innheimtuaðferð, m.a. í ljósi þess eftirlits sem nauðsynlegt er.

Einnig finnst mörgum ansi langt seilst að geta ekki átt sjónvarp eða útvarp án þess að þurfa að greiða afnotagjöld til Ríkisútvarpsins. Þau eru einnig að verða sífellt tæknilega erfiðari í framkvæmd í ljósi þess að nú er hægt að horfa á sjónvarp í tölvum og jafnvel í símum.

Útsendingar Ríkisútvarpsins eru einungis 7% af heildarútsendingartíma íslenskra sjónvarpsstöðva. Engu að síður er Ríkissjónvarpið í skylduáskrift allra landsmanna. Það er mun vænlegri leið til að standa undir rekstri Ríkisútvarpsins með framlagi á fjárlögum og þá með þjónustusamningi til langs tíma. Ætli ríkisvaldið á annað borð að reka þessa ríkisstofnun er erfitt að sjá rökin fyrir því af hverju sérstök tekjuöflun á borð við afnotagjöld verða að vera beitt í tilviki Ríkisútvarpsins.

Samkvæmt Gallup-könnun hefur verið mikill vilji meðal landsmanna að Ríkisútvarpið fái bein framlög úr ríkissjóði á fjárlögum og hætt verði með innheimtu afnotagjalda.

Aðrar leiðir til tekjuöflunar má einnig skoða, t.d. auðlindagjald á útvarpsrásum. Sú aðferð til tekjuöflunar Ríkisútvarpsins að beita afnotagjöldum er hins vegar mjög kostnaðarsöm, óskilvirk, óvinsæl og ósanngjörn. Það er fráleitt, herra forseti, að hafa aðferð við innheimtu sem er með slíka annmarka eins og afnotagjöldin eru. Þess vegna vil ég fá að vita hjá nýjum menntmrh. hvort hún muni beita sér fyrir því að innheimtu afnotagjalda Ríkisútvarpsins verði hætt.