Afnotagjöld Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:36:06 (4855)

2004-03-03 15:36:06# 130. lþ. 76.5 fundur 581. mál: #A afnotagjöld Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., KHG
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:36]

Kristinn H. Gunnarsson:

Herra forseti. Ég er algjörlega ósammála því sjónarmiði sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að fella niður afnotagjaldið. Ég tel að það sé nauðsynlegur tekjustofn fyrir Ríkisútvarpið, bæði til að tryggja afl þess og sjálfstæði. Ég hygg að það að færa fjárveitingar stofnunarinnar einvörðungu yfir í fjárlög muni þegar fram í sækir reynast stofnuninni erfiðara við að glíma en sú staða sem er í dag, að búa við afnotagjöld.

Það má skoða breytingu á afnotagjöldunum, t.d. því hvort rétt sé að færa þau yfir í nefskatt og tengja ekki lengur gjaldið við eigendur á viðtæki. Það má taka til athugunar en ég er ekki viss um að það gefi mönnum neinn ávinning sem rétt er að sækja eða leggja út í breytingar þess vegna. Afnotagjaldið, eins og það er í dag, er góður tekjustofn og innheimtukostnaðurinn um 3% af tekjunum. Það er ekki dýrt, herra forseti.