Afnotagjöld Ríkisútvarpsins

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:37:31 (4856)

2004-03-03 15:37:31# 130. lþ. 76.5 fundur 581. mál: #A afnotagjöld Ríkisútvarpsins# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:37]

Björgvin G. Sigurðsson:

Herra forseti. Hér er athyglisverð umræða á ferðinni. Ég þakka hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni fyrir að vekja máls á málefnum Ríkisútvarpsins. Um leið og við endurskoðum tekjustofna útvarpsins er brýnt að endurskoða og endurskilgreina hlutverk RÚV sem öryggis-, afþreyingar- og menningarmiðils í fremstu röð og efla verulega að því marki sem hægt er.

Ég tel, herra forseti, að við eigum að stefna að því að fella niður afnotagjöldin sem slík, það er úrelt og gamaldags innheimtuaðferð, og taka upp nefskatt þess í stað sem ég held einnig að mundi jafna verulega byrðarnar á landsmenn þar sem hann ætti að vera bæði aldurs- og afkomutengdur. Aldurs- og afkomutengdur nefskattur held ég að væri miklu réttlátari og betri leið til að skjóta traustum fjárhagslegum stoðum undir Ríkisútvarpið en sú gamaldags úrelta innheimtuaðferð sem afnotagjöldin eru með þeim persónunjósnum sem því fylgja þegar bankað er upp á hjá fólki seint um kvöld til að athuga hvort það eigi viðtæki.