Auglýsingar í Ríkisútvarpinu

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 15:55:15 (4868)

2004-03-03 15:55:15# 130. lþ. 76.6 fundur 582. mál: #A auglýsingar í Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[15:55]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegur forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr mig hvort ég muni beita mér fyrir því að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði og ef svo er, hvenær verði af því.

Ríkisútvarpið hefur fjármagnað rekstur sinn að hluta með auglýsingum, eins og við vitum, allt frá því að útsendingar hófust í hljóðvarpinu árið 1930. Þá hefur rekstur ríkissjónvarpsins verið fjármagnaður að hluta með tekjum af sölu auglýsinga allt frá því að það hóf rekstur sinn fyrst árið 1966. Ég hef engin áform uppi um eins og sakir standa að breyta þessu fyrirkomulagi og láta Ríkisútvarpið hverfa af auglýsingamarkaði.

Í Evrópu hafa menn vissulega farið mismunandi leiðir í þessum efnum, t.d. er reglan sú í Svíþjóð og Bretlandi að auglýsingar eru ekki birtar í ríkisfjölmiðlum en í Þýskalandi, Frakklandi, Hollandi, Austurríki, Spáni og Portúgal svo dæmi séu nefnd er rekstur ríkisrekinna ljósvakamiðla hins vegar m.a. fjármagnaður með auglýsingatekjum. Auglýsingatekjur Ríkisútvarpsins stóðu á síðasta ári undir 24% af heildartekjum stofnunarinnar. Tekjur af kostun námu um 3% af heildartekjum. Hefur hlutfall auglýsinga af heildartekjum farið minnkandi á síðustu árum.

Það er athyglisvert að samkvæmt viðhorfskönnun sem Gallup vann fyrir Ríkisútvarpið árið 2002 kom í ljós að mikill meiri hluti þjóðarinnar reyndist hlynntur auglýsingum í Ríkisútvarpinu. Alls sögðust 45,8% telja rétt að RÚV mundi auka tekjur sínar af auglýsingum og um 40,7% töldu rétt að hafa auglýsingar í sama mæli og nú væri. Einungis 10,3% af þjóðinni töldu rétt að Ríkisútvarpið færi af auglýsingamarkaði og tekjutapið yrði bætt með öðrum hætti. Þetta kom skýrt fram í könnun Gallups frá árinu 2002.

Stjórn Samtaka auglýsenda hefur einnig ályktað, í september 2001, um að RÚV eigi ekki að hverfa af auglýsingamarkaði, annars vegar vegna þess að erfiðara yrði fyrir auglýsendur að nálgast markhópa sína ef RÚV nyti ekki við á auglýsingamarkaði og hins vegar vegna þess að dýrara yrði fyrir auglýsendur að ná til markhópa sinna. Við vitum auðvitað öll hvar sá kostnaður mundi lenda.

Samkvæmt Samtökum auglýsenda yrði brottför RÚV af auglýsingamarkaði hvorki í þágu auglýsenda sjálfra né neytenda sem að mínu mati skiptir þó enn meira máli.