Lán til leiklistarnáms

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 16:03:30 (4873)

2004-03-03 16:03:30# 130. lþ. 76.7 fundur 584. mál: #A lán til leiklistarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[16:03]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Leiklistardeild Listaháskóla Íslands tók til starfa árið 2000. Þar með tók deildin að sér hlutverk sem áður hafði verið í höndum Leiklistarskóla Íslands allt frá stofnun þess skóla árið 1976. Samningur ríkisins við Listaháskólann byggist á alls 24 nemendagildum, eða sama fjölda og samningur við Leiklistarskóla Íslands hafði kveðið á um árin á undan. Leiklistardeildin tók ákvörðun um að halda í sömu tilhögun og taka inn 8--10 nemendur á hverju ári í þrjú ár og sleppa síðan inntöku fjórða árið. Sú ákvörðun byggist á því að samkvæmt samningum við ríkið um takmarkaðan nemendafjölda er æskilegra að sleppa einu ári til að hafa ekki færri en átta í bekk í senn, sem er almennt talin lágmarksstærð bekkja í leiklistarnámi. Með stofnun Listaháskóla Íslands er hins vegar markmiðið að gera leiklistardeildinni kleift að taka inn nemendur á hverju ári en ekki að taka inn nemendur í þrjú ár en hvíla inntökuprófin á því fjórða, eins og tíðkaðist og tíðkast því miður enn. Þetta hefur ekki gengið eftir enda kveður samningur ríkisins og skólans ekki á um fleiri nemendur sem er slæmt.

Þetta gerir það að verkum að þeir sem eindregið vilja læra leiklist fara til útlanda og reyna fyrir sér í skólum þar nái þeir ekki gegnum nálaraugað hér eða vilji þeir ekki fórna öllum þeim tíma sem það krefst að bíða næstu inntökuprófa. Það er óhentugur kostur fyrir marga að fara í nám erlendis enda mun dýrara en að læra hér heima og ekki lánshæft nema að litlu leyti hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Námið telst ekki lánshæft vegna þess að boðið er upp á námið hér heima, eru svörin frá LÍN. Það er þó umdeilanlegt þar sem ekki er tekið inn í deildina fjórða hvert á og stífar fjöldatakmarkanir á að komast í námið.

Nú stunda tugir Íslendinga leiklistarnám erlendis þó ekki sé lánað að fullu fyrir náminu sem væri réttlætismál að leiðrétta þar sem ungu fólki gefst í litlum mæli kostur á að stunda leiklistarnám hér heima vegna hinna miklu fjöldatakmarkana inn í leiklistarnámið. Annaðhvort þarf að fjölga nemendagildum leiklistarnámsins eða lána til framfærslu við leiklistarnám erlendis svo að réttlátar umbætur verði á högum leiklistarnema og þeirra sem hyggja á leiklistarnám.

Því spyr ég hæstv. menntmrh.:

Telur ráðherra koma til greina að veitt verði framfærslulán til Íslendinga í leiklistarnámi erlendis í ljósi þess hversu fáir fá inngöngu í leiklistarskóla hér á landi?