Lán til leiklistarnáms

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 16:06:10 (4874)

2004-03-03 16:06:10# 130. lþ. 76.7 fundur 584. mál: #A lán til leiklistarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hafa beint til mín spurningu um hvort til greina komi að veita framfærslulán til Íslendinga í leiklistarnámi erlendis í ljósi þess hversu fáir fái inngöngu í leiklistarskóla hér á landi.

LÍN hefur í fjölda ára lánað til leiklistarnáms, hvort sem það er á Íslandi eða erlendis, svo framarlega sem um er að ræða viðurkennt nám í viðurkenndum skólum. Í langflestum tilvikum hefur það verið vegna grunnnámsins, þ.e. grunnháskólanáms eða sérnáms, en í nokkrum tilfellum hefur verið um framhaldsnám að ræða. Leiklistarnemendur á Íslandi og í framhaldsháskólanámi erlendis eiga rétt á almennum námslánum fyrir framfærslu og skólagjöldum en þeir leiklistarnemendur sem eru í grunnnámi erlendis fá alltaf framfærslulán en ekki skólagjaldalán. Nemendur í grunnnámi við Listaháskólann fá lán fyrir skólagjöldum umfram 32.500 kr.

Segja má að fyrirspurnin sé að ákveðnu leyti byggð á misskilningi þar sem nemendur sem stunda leiklistarnám erlendis fá í dag framfærslulán frá LÍN ef þeir óska þess. Fjöldi lánþega í leiklistarnámi undanfarin fjögur skólaár, samkvæmt upplýsingum frá LÍN, var 51 skólaárið 1999--2000, þar af 29 erlendis. 56 skólaárið 2000--2001, þar af 34 erlendis. 56 skólaárið 2001--2002, þar af 35 erlendis. Og 52 voru í slíku námi árið 2002--2003, þar af voru 29 erlendis.

Langflestir þeirra nemenda sem stunduðu leiklistarnámið erlendis á umræddu árabili voru við nám í Bretlandi. Einnig fengu leiklistarnemar á sama árabili lán vegna leiklistarnáms á Norðurlöndunum, í Norður-Ameríku og á meginlandi Evrópu.