Lán til leiklistarnáms

Miðvikudaginn 03. mars 2004, kl. 16:08:14 (4875)

2004-03-03 16:08:14# 130. lþ. 76.7 fundur 584. mál: #A lán til leiklistarnáms# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi BjörgvS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svar hennar og umfjöllun um leiklistarnám erlendis. Brýnt er að skoða heildstætt hver fjárþörf þessara nemenda er, bæði til framfærslu og skólagjalda í skóla þar sem það er innheimt. Skólagjöldin geta numið töluverðum fjárhæðum og brýnt er að gefa nemendum kost á að taka lán fyrir fullri framfærslu, svo og skólagjöldum við skólana þar sem það á við og inn í viðtekið nám. Á hinn bóginn mætti fara hina leiðina sem að mörgu leyti er vænlegri, að létta á þeim stífu fjöldatakmörkunum sem eru inn í leiklistardeild Listaháskóla Íslands, inn í leiklistardeildina sem ekki annar nema 24 nemendagildum í senn.

Það væri gaman að fá fram röksemdir fyrir því af hverju þessi lága tala er notuð til viðmiðunar þar sem erfitt er að meta mettun á markaði leikara og ekki leikara. Það er huglægt atriði enda fást leikarar við margt annað og fjölbreytilegri störf en einungis það að leika.

Það er brýnt að koma til móts við þá sem vilja fara í skóla erlendis sem innheimta jafnvel skólagjöld og gera þeim þannig erfitt fyrir og lána þeim um leið fyrir fullri framfærslu. Þetta er töluverður hópur fólks, eins og kom fram í svari ráðherra, og sjálfsagt margir fleiri, eins og fram hefur komið í umræðum undanfarið, sem velta fyrir sér að fara þá leið.

Af þeim sökum er mikilvægt að gera úrbætur og gera þessu fólki kleift að sækja leiklistarnám í erlenda skóla eigi það ekki kost á að fara í skólann heima eða telji sig ekki geta fórnað þeim tíma sem fer í að bíða eftir næsta inntökuprófi þar sem milli þeirra geta liðið allt að tvö ár.