Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 10:52:43 (4884)

2004-03-04 10:52:43# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[10:52]

Einar Oddur Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Ég dreg ekki í efa rök hæstv. dómsmrh. um að mikil þörf sé á að gera þá hluti sem hann hyggst standa fyrir. Hins vegar tel ég rétt að minna menn á það að sl. haust þegar við lögðum fram fjárlagafrv. var það rauður þráður sem gengið var út frá, að við yrðum á næstu þremur árum að stemma stigu við samneyslunni í þjóðfélaginu þannig að vöxtur hennar væri ekki nema 2% að raungildi. Það er hið mikla verkefni sem bíður núv. ríkisstjórnar og stuðningsflokka hennar á næstu árum. Það verður mjög sárt og mjög erfitt vegna þess að við þurfum á þeim tíma að standa gegn mjög mörgum góðum og brýnum málum og verðum að gera það vegna þess að atvinnulíf Íslands krefst þess að við gerum það.

Þess vegna segi ég hér og nú að ég ætla að vona að svo gott mál sem hér er borið upp af dómsmrh. verði ekki til þess að menn slaki á aðalverkefninu, að standa vörð um ríkisfjármálin. Það má ekki vegna þess að við verðum að gera okkur grein fyrir því, þrátt fyrir að menn muni kalla á brýn og góð verkefni, að verkefni okkar er að standa gegn því vegna atvinnulífsins. Ég tel nauðsynlegt að brýna þetta fyrir mönnum og taka það fram aftur og aftur vegna þess að þetta mun koma fram æ og aftur næstu þrjú árin.