Breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum

Fimmtudaginn 04. mars 2004, kl. 11:05:08 (4890)

2004-03-04 11:05:08# 130. lþ. 77.94 fundur 384#B breyttar áherslur dómsmálaráðherra í lögreglumálum# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 130. lþ.

[11:05]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessar umræður. Mér þykir miður að skoðanir mínar á kvikmyndum og öðru slíku villi mönnum sýn þegar þeir fjalla um þessi mál og þeir komist ekki út úr svo barnalegum viðhorfum sem hafa heyrst hjá þeim sem hafa verið að gagnrýna þessa ákvörðun. Ég bið menn um að líta á þetta á hlutlægum forsendum.

Ég legg málið þannig upp að við erum að takast á við alvarleg viðfangsefni í þjóðfélaginu og bregðast við á skynsamlegan hátt. Hér hafa þingmenn komið hvað eftir annað á undanförnum mánuðum og árum og fyrir liggja, eins og ég gat um, spurningar til mín: Hvað er til ráða hjá lögreglunni og öðrum þeim aðilum sem við höfum í þjóðfélaginu til að auka öryggi hins almenna borgara? Þetta er svar mitt við því. Þetta er skynsamlegasta leiðin sem okkur ber að fara núna. Ég virði það að menn hafi önnur sjónarmið varðandi þetta en bið þá um að ræða það á hlutlægum, málefnalegum forsendum en ekki láta mína persónu villa sér sýn og eitthvert ruglutal um það hvaða hugmyndir þeir hafa um viðhorf mitt til einstakra mála. Þetta eru viðfangsefnin sem við stöndum frammi fyrir, hv. þingmenn, að gera þjóðfélagið betra og öruggara. Því miður eru aðstæður þannig að það er nauðsynlegt að grípa til þessara ráðstafana.

Ég er tilbúinn að ræða þetta sem forgangsverkefni þegar við ákveðum fjárlög. Ég hef lagt fram mína stefnu. Ég tel nauðsynlegt að gera þetta með þessum hætti og ég er tilbúinn að fara í allar þær málefnalegu umræður sem eru nauðsynlegar til að þetta markmið náist. Það er ekki verið að stofna neina leyniþjónustu. Það er ekki verið að leggja á ráðin um neinn leyndarhjúp yfir sérsveitinni umfram það sem nauðsynlegt er til þess að sérsveitarmennirnir geti gegnt hlutverki sínu. Hv. þm. Ögmundur Jónasson getur lesið um það og kynnt sér hvernig staðið er að slíku starfi hvarvetna í heiminum og hvernig þessir menn vinna og hann þarf ekkert að fara í sérstaka smiðju til mín um það. Ég hef ekki mótað þær starfsreglur. Þær eru settar í lögum og það er innan þeirra laga sem þessir sérsveitarmenn starfa. Það hefur verið samþykkt á Alþingi, og Alþingi hefur veitt það umboð sem er nauðsynlegt til að þeir geti sinnt mikilvægum störfum sínum.